Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð
01

Almennt um endurgreiðslur

Afborganir námslána hefjast tveimur árum eftir námslok og miðast námslok við lok síðasta aðstoðartímabils. Afborganir eru almennt tvisvar á ári, annars vegar föst afborgun sem er á gjalddaga 1. mars og svo tekjutengd afborgun á gjalddaga 1. september ár hvert. Föst afborgun er sú sama fyrir alla lánþega en tekjutengd afborgun tekur mið af tekjum ársins á undan samkvæmt skattframtali.

Fyrir lánþega sem eru að hefja endurgreiðslur af námslánum er fasta afborgun á fyrsta endurgreiðsluárinu almennt þann 30. júní í stað 1. mars. Tekjutengd afborgun þess árs er þó eftir sem áður 1. september.

Vextir af námslánum reiknast frá lokun skuldabréfs, þ.e. við lok síðasta lánamisseris. Vextir námslána eru 1%.

02

Föst afborgun

Föst afborgun námslána er sú sama fyrir alla lánþega sem eru að greiða af sama lánaflokki en tekur breytingum ár frá ári í takt við breytingar á vísitölu neysluverðs.

Föst afborgun R- og G-lána á árinu 2019 er 136.487 kr.

Föst afborgun S-lána á árinu 2019 er 80.827 kr.

03

Tekjutengd afborgun

Tekjutengd afborgun námslána tekur mið af tekjum lánþega á árinu á undan greiðsluári. Þannig er tekjutengd afborgun ársins 2019 t.d. byggð á tekjum ársins 2018. Fjárhæð tekjustofnsins samkvæmt skattaupplýsingum er margfölduð með hlutfallslegri breytingu á vísitölu frá 1. júlí á tekjuöflunarári til 1. júlí á endurgreiðsluári.

Svo hægt sé að reikna út tekjutengda afborgun hvers árs þarf LÍN að afla upplýsinga um tekjur lánþega frá ríkisskattstjóra.

Lánþegar sem búa erlendis þurfa sjálfir að senda skattframtal sitt til LÍN svo hægt sé að reikna tekjutengda afborgun. Upplýsingar um tekjur erlendis skulu hafa borist sjóðnum fyrir 1. júlí ár hvert. Berist LÍN ekki upplýsingar um tekjur er fjárhæð tekjutengdrar afborgunnar byggð á áætluðum tekjum. Hafi tekjur lánþega verið áætlaðar (á einnig við ef Ríkisskattstjóri hefur áætlað tekjur í skattframtali) getur lánþegi óskað eftir endurútreikningi tekjutengdrar afborgunnar. Sækja þarf um slíkan endurútreikning innan 60 daga frá gjalddaga.

Erlendar tekjur eru yfirfærðar í íslenskar krónur miðað við meðalgengi Seðlabanka Íslands á viðmiðunarárinu.

Tekjustofninn og hlutfall tekna sem er notað við útreikning á upphæð afborgunar er mismunandi eftir tegund lána. Nánari upplýsingar er að finna hér fyrir neðan.

G-lán (veitt frá 2005-)

Tekjutengd afborgun G-lána er reiknuð út frá útsvarsstofni og fjármagnstekjum greiðanda árið á undan endurgreiðsluári.

Með fjármagnstekjum er fyrst og fremst átt við vexti, arð, leigutekjur og söluhagnað. Fjármagnstekjur skiptast jafnt á milli hjóna og sambúðaraðila.

Með útsvarsstofni er átt við launatekjur, en einnig ýmsar aðrar tekjur s.s. lífeyrisgreiðslur og tryggingabætur, sbr. lög um tekju- og eignarskatt.

Endurgreiðsluhlutfall er 3,75% af tekjustofninum, fasta greiðslan á fyrri hluta ársins kemur til frádráttar.

R-lán (veitt frá 1992-2005)

Tekjutengd afborgun er reiknuð út frá útsvarsstofni greiðanda árið á undan endurgreiðsluári.

Með útsvarsstofni er átt við launatekjur, en einnig ýmsar aðrar tekjur s.s. lífeyrisgreiðslur og tryggingabætur, sbr. lög um tekju- og eignarskatt.

Endurgreiðsluhlutfall er 4,75% af tekjustofninum, fasta greiðslan á fyrri hluta ársins kemur til frádráttar.

S-lán (veitt 1982-1992)

Tekjutengd afborgun er reiknuð út frá útsvarsstofni greiðanda árið á undan endurgreiðsluári.

Með útsvarsstofni er átt við launatekjur, en einnig ýmsar aðrar tekjur s.s. lífeyrisgreiðslur og tryggingabætur, sbr. lög um tekju- og eignarskatt.

Endurgreiðsluhlutfall er 3,75% af tekjustofninum, fasta greiðslan á fyrri hluta ársins kemur til frádráttar.

V-lán (veitt til 1982)

Tekjutengda afborgunin reiknast sem hlutfall af tekjum (sameiginlegum tekjum ef um hjón er að ræða) umfram viðmiðunartekjur. Hlutfallið er mismunandi eftir því hvenær endurgreiðslur hófust :1979-83 = 1 % 1984=1,3% eftir 1984= 1,7%.

Viðmiðunartekjur fara eftir fjölskyldustærð.

Ef maki er einnig að greiða af V-láni þá helmingast afborganir (júlí og nóv.) hjá þeim báðum.

Ef greitt er einnig af S-láni á sama tíma (greiðandi með S-og V-lán) eru báðar afborganir reiknaðar samkvæmt ákvæðum lánanna og afborganir V-láns síðan dregnar frá heildarafborgun S-láns. Ef út kemur upphæð hærri en kr. 0 þá kemur gjalddagi 1. september af S-láni einnig.