Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð
01

Almenn skilyrði

Umsækjendur þurfa að vera orðnir fjárráða (18 ára) til að geta sótt um námslán. Þá þurfa umsækjendur að uppfylla ákveðin búsetuskilyrði og/eða skilyrði um tengsl við Ísland sem íslenskir eða erlendir ríkisborgarar.

Umsækjendur mega ekki vera á vanskilaskrá eða í vanskilum við sjóðinn með eldri lán, bú þeirra sé ekki í gjaldþrotameðferð og hafi ekki áður verið tekið til gjaldþrotaskipta, svo og að sjóðurinn hafi ekki áður þurft að afskrifa lán gagnvart viðkomandi.

Námsmenn á vanskilaskrá geta þó í vissum tilvikum átt rétt á námslánum ef þeir veita tryggingu fyrir lánunum, s.s. í formi ábyrgðarmanns. Nánari upplýsingar um lánshæfisskilyrði má finna hér.

Námsmenn þurfa að vera í fullu lánshæfu námi til að geta fengið námslán. Lágmarksárangur á önn eru 22 ECTS-einingar eða ígildi þeirra. 

02

Búsetuskilyrði sem þarf að uppfylla

Réttindi íslenskra námsmanna

Íslenskir ríkisborgarar eiga rétt til námslána uppfylli þeir eitt af eftirtöldum skilyrðum, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 478/2011:

1. Umsækjandi hafi haft 5 ára samfellda búsetu á Íslandi fyrir umsóknardag.

2. Umsækjandi hafi verið við launuð störf hér á landi:

a. síðustu 12 mánuði fyrir umsóknardag og haft samfellda búsetu á Íslandi á sama tíma eða,

b. starfað í skemmri tíma en 12 mánuði fyrir umsóknardag og haft búsetu á Íslandi í tvö ár samanlagt á samfelldu 5 ára    tímabili.

3. Hafi launað starf umsækjanda síðustu 12 mánuði fram að upphafi náms ekki verið samfellt, er þó heimilt að samþykkja umsókn í ákveðnum tilvikum sem eru tilgreind í 3. gr. reglugerðar nr. 478/2011.

Að auki er stjórn sjóðsins heimilt í sérstökum tilfellum að leggja sterk tengsl umsækjanda við Ísland að jöfnu við að framangreind skilyrði séu uppfyllt.

Réttindi norrænna námsmanna

Námsmenn frá Norðurlöndum, sem heimilisfastir eru á Íslandi og stunda lánshæft nám hérlendis, njóta námsaðstoðar til jafns við íslenska námsmenn enda fái þeir ekki námsaðstoð frá heimalandi sínu sbr. samkomulag milli Norðurlanda um þessi efni eins og það er á hverjum tíma.

Réttindi EES-ríkisborgara sem eru launþegar/sjálfstætt starfandi

Réttindi EES-ríkisborgara sem eru launþegar/sjálfstætt starfandi og fjölskyldumeðlima þeirra:

Námsmenn, sem eru launþegar/sjálfstætt starfandi eða halda þeirri stöðu samkvæmt reglum EES-réttar og eru ríkisborgarar í EES-ríki og fjölskyldur þeirra og aðrir sem eru á þeirra framfæri, eiga rétt á námslánum í samræmi við skilyrði 4. gr. reglugerðar nr. 478/2011.

Réttindi EES-ríkisborgara annarra en eru í grein 1.1.3

Námsmenn sem eru ríkisborgarar í EES-ríki, aðrir en þeir sem tilgreindir eru í grein 1.1.3 eiga rétt á námslánum í samræmi við skilyrði 5. gr. reglugerðar nr. 478/2011.

Réttindi annarra erlendra námsmanna

Erlendur ríkisborgari öðlast lánsrétt eins og íslenskir námsmenn á þeirri önn sem samþykkt er að veita honum íslenskan ríkisborgararétt. Erlendur ríkisborgari, sem ekki er ríkisborgari á Evrópska efnahagssvæðinu (EES), getur sótt um námslán vegna náms sem er stundað á Íslandi eða á Norðurlöndunum ef viðkomandi uppfyllir bæði eftirtalinna skilyrða;

1. er í hjúskap með íslenskum ríkisborgara sem uppfyllir skilyrði gr. 1.1.1 og
2. hefur átt lögheimili á Íslandi í að lágmarki 2 ár af síðastliðnum 5 árum áður en nám hefst.

Einstaklingar sem stjórnvöld hafa veitt alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skulu eiga rétt á námslánum samkvæmt lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna að því tilskildu að þeir séu komnir til landsins og fyrir liggi staðfesting Útlendingastofnunar á því að viðkomandi hafi verið veitt réttarstaða flóttamanns eða hafi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt lögum um útlendinga.

Sækja um námslán