01

Hver á rétt á námsláni?

Umsækjendur þurfa að vera orðnir fjárráða (18 ára) til að geta sótt um námslán. Þá þurfa umsækjendur að uppfylla ákveðin búsetuskilyrði og/eða skilyrði um tengsl við Ísland sem íslenskir eða erlendir ríkisborgarar.

Umsækjendur þurfa að teljast lánshæfir sem lántakendur hjá sjóðnum og mega til dæmis ekki vera á vanskilaskrá eða í vanskilum við sjóðinn með eldri lán. Námsmenn á vanskilaskrá geta þó í vissum tilvikum átt rétt á námslánum ef þeir veita tryggingu fyrir lánunum, s.s. í formi ábyrgðarmanns. Nánari upplýsingar um lánshæfisskilyrði má finna hér. Skilyrði sem einstaklingur þarf að uppfylla til að gerast ábyrgðarmaður má finna hér.

02

Búsetuskilyrði sem þarf að uppfylla

Réttindi íslenskra námsmanna

Íslenskir ríkisborgarar eiga rétt til námslána uppfylli þeir eitt af eftirtöldum skilyrðum, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 478/2011:

1. Umsækjandi hafi haft 5 ára samfellda búsetu á Íslandi fyrir umsóknardag.

2. Umsækjandi hafi verið við launuð störf hér á landi:

a. síðustu 12 mánuði fyrir umsóknardag og haft samfellda búsetu á Íslandi á sama tíma eða,

b. starfað í skemmri tíma en 12 mánuði fyrir umsóknardag og haft búsetu á Íslandi í tvö ár samanlagt á samfelldu 5 ára    tímabili.

3. Hafi launað starf umsækjanda síðustu 12 mánuði fram að upphafi náms ekki verið samfellt, er þó heimilt að samþykkja umsókn í ákveðnum tilvikum sem eru tilgreind í 3. gr. reglugerðar nr. 478/2011.

Að auki er stjórn sjóðsins heimilt í sérstökum tilfellum að leggja sterk tengsl umsækjanda við Ísland að jöfnu við að framangreind skilyrði séu uppfyllt.

Réttindi norrænna námsmanna

Námsmenn frá Norðurlöndum, sem heimilisfastir eru á Íslandi og stunda lánshæft nám hérlendis, njóta námsaðstoðar til jafns við íslenska námsmenn enda fái þeir ekki námsaðstoð frá heimalandi sínu sbr. samkomulag milli Norðurlanda um þessi efni eins og það er á hverjum tíma.

Réttindi EES-ríkisborgara sem eru launþegar/sjálfstætt starfandi

Réttindi EES-ríkisborgara sem eru launþegar/sjálfstætt starfandi og fjölskyldumeðlima þeirra:

Námsmenn, sem eru launþegar/sjálfstætt starfandi eða halda þeirri stöðu samkvæmt reglum EES-réttar og eru ríkisborgarar í EES-ríki og fjölskyldur þeirra og aðrir sem eru á þeirra framfæri, eiga rétt á námslánum í samræmi við skilyrði 4. gr. reglugerðar nr. 478/2011.

Réttindi EES-ríkisborgara annarra en eru í grein 1.1.3

Námsmenn sem eru ríkisborgarar í EES-ríki, aðrir en þeir sem tilgreindir eru í grein 1.1.3 eiga rétt á námslánum í samræmi við skilyrði 5. gr. reglugerðar nr. 478/2011.

Réttindi annarra erlendra námsmanna

Erlendur ríkisborgari öðlast lánsrétt eins og íslenskir námsmenn á þeirri önn sem samþykkt er að veita honum íslenskan ríkisborgararétt. Erlendur ríkisborgari, sem ekki er ríkisborgari á Evrópska efnahagssvæðinu (EES), getur sótt um námslán vegna náms sem er stundað á Íslandi eða á Norðurlöndunum ef viðkomandi uppfyllir bæði eftirtalinna skilyrða;

1. er í hjúskap með íslenskum ríkisborgara sem uppfyllir skilyrði gr. 1.1.1 og
2. hefur átt lögheimili á Íslandi í að lágmarki 2 ár af síðastliðnum 5 árum áður en nám hefst.

Einstaklingar sem stjórnvöld hafa veitt alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skulu eiga rétt á námslánum samkvæmt lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna að því tilskildu að þeir séu komnir til landsins og fyrir liggi staðfesting Útlendingastofnunar á því að viðkomandi hafi verið veitt réttarstaða flóttamanns eða hafi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt lögum um útlendinga.

03

Skilyrði sem lánþegar þurfa að uppfylla

Skilyrði sem lánþegar þurfa m.a. að uppfylla til þess að teljast lánshæfir sem lántakendur hjá sjóðnum er að þeir séu ekki á vanskilaskrá né í vanskilum við sjóðinn þegar sótt er um nýtt lán, bú þeirra sé ekki í gjaldþrotameðferð og hafi ekki áður verið tekið til gjaldþrotaskipta, svo og að sjóðurinn hafi ekki áður þurft að afskrifa lán gagnvart viðkomandi.

Teljist námsmaður ekki lánshæfur samkvæmt framangreindu getur hann sótt um undanþágu frá þessari grein enda leggi hann fram tryggingar sem sjóðurinn telur viðunandi, s.s. veð eða sjálfskuldarábyrgðir þriðja aðila. Undanþága frá ofangreindum skilyrðum er þó aldrei veitt vegna námsmanns sem er í vanskilum við sjóðinn.

04

Skilyrði sem ábyrgðarmenn þurfa að uppfylla

Ábyrgðarmaður staðfestir með undirskrift sinni

Ábyrgðarmaður staðfestir með undirskrift sinni á skuldabréf eða ábyrgðar-yfirlýsingu að hann hafi kynnt sér ákvæði skuldabréfsins og niðurstöðu greiðslumats og ef við á yfirlit úr vanskilaskrá.

Ábyrgðarmenn skulu vera orðnir 18 ára og fjárráða

Ábyrgðarmenn skulu vera orðnir 18 ára og fjárráða. Ábyrgðarmenn skulu ekki vera eldri en 50 ára nema um sé að ræða foreldra námsmanns.

Ábyrgð lögpersónu í stað einstaklings er háð samþykki stjórnar sjóðsins og að um sé að ræða opinbera stofnun eða fjármálastofnun sem Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með.

Sjóðnum skal þá heimilt, með samþykki lánþega, að innheimta gjald fyrir ábyrgðaraðilann við útborgun lánsins. Að öðru leyti gilda um ábyrgð lögpersónu sömu reglur og almennt gilda um sjálfskuldar-ábyrgð einstaklinga.

Ábyrgðarmenn skulu að jafnaði vera íslenskir ríkisborgarar

Ábyrgðarmenn skulu að jafnaði vera íslenskir ríkisborgarar með lögheimili á Íslandi. Óheimilt er að samþykkja ábyrgðarmenn fyrir námsláni sem eru á vanskilaskrá, í vanskilum við sjóðinn eða bú þeirra sé í, eða hafi verið tekið til gjaldþrotameðferðar. Ábyrgðarmaður skal jafnframt undirgangast mat á lánshæfi sem þarf að vera fullnægjandi að mati sjóðsins.

Ef staða ábyrgðarmanns breytist

Breytist staða ábyrgðarmanns þannig að hann telst ekki lengur uppfylla ofangreind skilyrði þá skal lántakandi útvega nýjan ábyrgðarmann fyrir námsláni sínu áður en hann fær frekari lán afgreidd hjá sjóðnum. Þá ábyrgist hinn nýi ábyrgðarmaður allt það lán sem lántakandi kann að fá til viðbótar. Eldri ábyrgð fellur ekki úr gildi nema að henni sé sagt upp og ný sett í staðinn með samþykki sjóðsins.

Sækja um námslán