Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð
01

Námsframvinda

Fullt nám telst 60-ECTS einingar á hverju skólaári, það er 30-ECTS einingar á hverju misseri eða ígildi þess ef einingar eru á öðru formi. Lágmarksnámsframvinda til að fá afgreidd námslán er 22-ECTS einingar á hverju misseri.

Fullt nám í fjórðungaskólum (skólar þar sem skólaári er skipt niður á haust-, vetrar- og vorönn í stað haust- og vorannar) er 20-ECTS einingar á hverri fjórðungsönn (samtals 60-ECTS einingar á skólaári) og lágmarksnámsframvinda því 15 ECTS-einingar á hverri önn.

Í sumum skólum er boðið upp á nám á sumarönn. Fullt nám á sumarönn er 20 ECTS-einingar og lágmarksnámsframvinda 15 ECTS-einingar. Vakin er athygli á því að skólagjaldalán eru ekki veitt á sumarönn nema námsmaður ljúki að minnsta kosti 60 ECTS-einingum á námsárinu öllu að sumarönn meðtalinni.

02

Aukið svigrúm í námi/undanþágur

Að loknu skólaári (haust- og vorönn) er árangur ársins gerður upp. Skili námsmaður samanlagt a.m.k. 44 ECTS-eininga árangri á skólaárinu í heild, á hann rétt á láni í hlutfalli við árangur á einstökum önnum skólaársins.
Það er þó skilyrði í þessu tilfelli að námsmaður hafi verið skráður í a.m.k. 22 ECTS-eininga nám á hverju misseri og samsvarandi hlutfall í fjórðungaskólum til loka annar.


Vegna veikinda, barnsburðar, örorku og lesblindu

Námsmenn geta sótt um aukið svigrúm í námi ef veikindi, barnsburður, örorka eða annað, s.s. lesblinda, gera að verkum að þeim tekst ekki að skila lágmarksnámsárangri á tiltekinni önn.

Sé aukið svigrúm veitt eru lánseiningar hækkaðar upp í lágmarksnámsframvindu (almennt 22 ECTS-einingar) en aldrei umfram það.

Nánar er fjallað um aukið svigrúm í námi í kafla 2.4 í úthlutunarreglum LÍN.

03

Vottorð frá skólum um námsframvindu

Flestir skólar á Íslandi senda námsframvindu í fjöldakeyrslu til LÍN í lok hverrar annar að því gefnu að námsmenn hafi veitt skólanum heimild  til að senda LÍN persónuupplýsingar. Nemendur í námi á Íslandi þurfa því almennt ekki að senda upplýsingar um námsárangur sérstaklega en frá því eru undantekningar.

Ef námsmaður lýkur námskeiðum utan hefðbundins tímabils námsárangursskila þarf hann að senda vottorð um námsárangur sérstaklega.
Sem dæmi er hefðbundið tímabil námsárangursskila fyrir haustmisseri á tímabilinu desember - febrúar ár hvert og fyrir vormisseri maí – júní ár hvert.

LÍN keyrir námsárangur reglulega inn rafrænt á þessum tímabilum en ekki utan þeirra. Námsmenn sem skila námsárangri seinna en venjulega þurfa því að láta senda árangurinn sérstaklega.

Ekki er hægt að móttaka námsárangur úr skiptinámi í rafrænni keyrslu frá skólum. Námsmenn í skiptinámi þurfa því að fá nemendaskrá síns skóla til að senda staðfestingu á loknu skiptinámi á tiltekinni önn.

LÍN á almennt ekki í beinum samskiptum við erlenda skóla og þurfa námsmenn í námi erlendis því sjálfir að sjá til þess að námsárangur berist LÍN. Vottorð um námsárangur er ekki tekið gilt sem staðfesting nema það innihaldi eftirtalin atriði:

Heiti skólans og þess náms sem stundað er.

Fullt nafn og kennitala eða fæðingardagur námsmanns.

Tilgreina þarf fjölda lokinna eininga en sé námsárangur ekki gefinn upp í einingum þarf að koma fram greinargott mat á námsárangri/ ástundun.

Hvaða önn námsárangurinn tilheyrir.

Undirskrift starfsmanns skóla, stimpill skóla eða annað sem tryggir að vottorðið sé ekta.

Heimilt er að veita lán að fengnu ástundunarvottorði ef námsmaður tekur einungis próf einu sinni á ári eða eftir lengri tíma. Lán er þá veitt í samræmi við árangur ef námsframvinda er metin í vottorðinu. Heimilt er að veita lán út á 30 ECTS-einingar ef skýrt kemur fram í vottorði að viðkomandi hafi stundað fullt nám. Þegar niðurstaða námsársins liggur fyrir er námsframvindan endurmetin og kunna áður afgreidd lán að vera endurkræf sem ofgreidd lán.

 

Sækja um námslán