Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

I. Kafli – Lánshæft nám

1.1 Almennt

Sjóðurinn veitir námslán til framhaldsnáms við viðurkennda skóla eða menntastofnanir sem veita æðri menntun er leiðir til prófgráðu á háskólastigi. Sjóðnum er heimilt að veita námslán til sérnáms.

Nám telst lánshæft ef það er skipulagt sem fullt nám í ákveðinni námsgrein í kennsluskrá skóla, 60 ECTS-einingar (ECTS stendur fyrir „European Credit Transfer and Accumulation System“) eða ígildi þeirra á hverju skólaári eða a.m.k. 30 ECTS-einingar á hverju misseri í þeim tilvikum þegar námsskipulagið nær ekki yfir heilt skólaár. Skráning nemenda hjá skóla ræður því hvort námsmaður telst í lánshæfu námi eða ekki.

Heimilt er að veita námslán vegna skólagjalda, án framfærslu, til náms sem ekki er skipulagt sem 60 ECTS-eininga nám á skólaárinu, sbr. 2. mgr. Námið verður þó að vera skipulagt sem a.m.k. 45 ECTS-eininga nám á hverju skólaári, þ.e. 75% af fullu námi, sbr. gr. 2.1.

Lán er ekki veitt til náms sem er liður í launuðu starfi samkvæmt ráðningarsamningi. Þetta gildir m.a. um launað framhaldsnám lækna.

Lán er ekki veitt til undirbúningsnáms né heldur til náms sem er framhald af doktorsprófi eða sambærilegu prófi.

Hafi námsmaður fullnýtt svigrúm sitt til lána á ákveðinni námsbraut eða ákveðnu skólastigi, sbr. gr. 2.1, telst frekara nám á viðkomandi námsbraut/ skólastigi ekki lánshæft.

Skilyrði til aðstoðar frá sjóðnum er að umsækjandi sé orðinn fjárráða á þeirri önn sem sótt er um námslán til.

1.1.1 Réttindi íslenskra námsmanna

Íslenskir ríkisborgarar eiga rétt til námslána uppfylli þeir eitt af eftirtöldum skilyrðum, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 478/2011:

    1. Umsækjandi hafi haft 5 ára samfellda búsetu á Íslandi fyrir umsóknardag.
    2. Umsækjandi hafi verið við launuð störf hér á landi:
        a. síðustu 12 mánuði fyrir umsóknardag og haft samfellda búsetu á Íslandi á sama tíma eða,
        b. starfað í skemmri tíma en 12 mánuði fyrir umsóknardag og haft búsetu á Íslandi í tvö ár samanlagt á samfelldu 5 ára tímabili.
    3. Hafi launað starf umsækjanda síðustu 12 mánuði fram að upphafi náms ekki verið samfellt, er þó heimilt að samþykkja umsókn í ákveðnum tilvikum sem eru tilgreind í 3. gr. reglugerðar nr. 478/2011.

Að auki er stjórn sjóðsins heimilt í sérstökum tilfellum að leggja sterk tengsl umsækjanda við Ísland að jöfnu við að framangreind skilyrði séu uppfyllt.

1.1.2 Réttindi norrænna námsmanna

Námsmenn frá Norðurlöndum, sem heimilisfastir eru á Íslandi og stunda lánshæft nám hérlendis, njóta námsaðstoðar til jafns við íslenska námsmenn enda fái þeir ekki námsaðstoð frá heimalandi sínu sbr. samkomulag milli Norðurlanda um þessi efni eins og það er á hverjum tíma.

1.1.3 Réttindi EES-ríkisborgara sem eru launþegar/sjálfstætt starfandi og fjölskyldumeðlima þeirra

Námsmenn, sem eru launþegar/sjálfstætt starfandi eða halda þeirri stöðu samkvæmt reglum EES-réttar og eru ríkisborgarar í EES-ríki og fjölskyldur þeirra og aðrir sem eru á þeirra framfæri, eiga rétt á námslánum í samræmi við skilyrði 4. gr. reglugerðar nr. 478/2011.

1.1.4 Réttindi EES-ríkisborgara annarra en sem tilgreindir eru í grein 1.1.3

Námsmenn sem eru ríkisborgarar í EES-ríki, aðrir en þeir sem tilgreindir eru í grein 1.1.3 eiga rétt á námslánum í samræmi við skilyrði 5. gr. reglugerðar nr. 478/2011.

1.1.5 Réttindi annarra erlendra námsmanna

Erlendur ríkisborgari öðlast lánsrétt eins og íslenskir námsmenn á þeirri önn sem samþykkt er að veita honum íslenskan ríkisborgararétt.

Erlendur ríkisborgari, sem ekki er ríkisborgari á Evrópska efnahagssvæðinu (EES), getur sótt um námslán vegna náms sem er stundað á Íslandi eða á Norðurlöndunum ef viðkomandi uppfyllir bæði eftirtalinna skilyrða;

    1. er í hjúskap með íslenskum ríkisborgara sem uppfyllir skilyrði gr. 1.1.1 og
    2. hefur átt lögheimili á Íslandi í að lágmarki 2 ár af síðastliðnum 5 árum áður en nám hefst.

Einstaklingar sem stjórnvöld hafa veitt alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skulu eiga rétt á námslánum samkvæmt lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna að því tilskildu að þeir séu komnir til landsins og fyrir liggi staðfesting Útlendingastofnunar á því að viðkomandi hafi verið veitt réttarstaða flóttamanns eða hafi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt lögum um útlendinga.

1.2 Lánshæft nám á Íslandi
1.2.1 Háskólanám

Nám á háskólastigi er lánshæft og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Nám á háskólastigi í eftirtöldum skólum er lánshæft:

Háskóla Íslands
Háskólanum á Akureyri
Háskólanum á Bifröst
Háskólanum á Hólum
Háskólanum í Reykjavík
Landbúnaðarháskóla Íslands
Listaháskóla Íslands

1.2.2 Sérnám á Íslandi

Lánshæft sérnám á Íslandi er löggilt iðnnám og annað a.m.k. eins árs starfsnám á framhaldsskólastigi sem hlotið hefur staðfestingu ráðherra samkvæmt lögum nr. 92/2008 um framhaldsskóla og uppfyllir að auki öll eftirfarandi skilyrði;

    1. Námið hafi fengið jákvæða umsögn af viðkomandi starfsgreinaráði,
    2. námið sé ekki launað samkvæmt kjarasamningi umfram grunnframfærslu  námslána á Íslandi, sbr. gr. 3.1.1 og 3.2 og
    3. námslok séu á þriðja hæfnisþrepi og
    4. sambærilegt nám sé almennt ekki í boði á háskólastigi hér á landi.

Nám í fjölbrauta- og menntaskólum og öðrum skólum sem bjóða upp á nám sem er liður í undirbúningi til stúdentsprófs eða sambærilegs prófs, er ekki lánshæft samkvæmt þessari grein.

1.3 Lánshæft nám erlendis

1.3.1 Háskólanám

Lánað er til náms við alþjóðlega viðurkennda háskóla erlendis, sem gera sambærilegar kröfur til nemenda og gerðar eru í háskólanámi hérlendis, sjá þó ákvæði gr. 4.5 um lán vegna skólagjalda.

1.3.2 Sérnám

Heimilt er að veita lán til sérnáms erlendis. Lánshæfi er háð því að um sé að ræða viðurkenndan skóla af menntamálayfirvöldum í landinu, námið sé skipulagt sem a.m.k. eins árs nám og sé nægilega veigamikið að mati stjórnar sjóðsins hvað varðar eðli, uppbyggingu, inntökuskilyrði og starfsréttindi. Áður en ákvörðun er tekin um lánshæfi námsbrautar og/eða skóla verður umsækjandi að veita nákvæmar upplýsingar um uppbyggingu náms, m.a. fjölda ECTS-eininga (eða ígildi þeirra) og lengd náms. Gerðar eru samskonar kröfur til lánshæfs sérnáms erlendis og sérnáms innanlands, þar á meðal um að sambærilegt nám sé ekki í boði á háskólastigi á Íslandi. Ekki er lánað til starfsnáms sem er launað samkvæmt kjarasamningi umfram grunnframfærslu, sbr. gr. 3.1.2 og 3.2.

1.3.3 Tungumálanám sem undirbúningsnám

Heimilt er að veita lán til tungumálanáms ef það er nauðsynlegur undirbúningur undir lánshæft nám í landi þar sem annað tungumál en enska og Norðurlandamál (annað en finnska) er talað.

Heimilt er að líta á undirbúningsnám í tungumálum sem nám á meistara- eða doktorsstigi, sbr. gr. 2.3.2 og 2.3.3, hafi námsmaður lokið grunnháskólanámi og hyggist stunda meistara- eða doktorsnám í sömu grein.

Ef námsmaður hefur áður fengið lán til að stunda nám í viðkomandi tungumáli er ekki veitt lán til undirbúningsnáms í tungumálum.

Hámarkseiningafjöldi sem veitt er lán til samkvæmt þessari grein, fer eftir viðkomandi tungumáli og er á bilinu 30-90 ECTS-einingar. Sjá nánar í fylgiskjali III.

Ef lánþegi skiptir um námsland að loknu tungumálanámi er honum synjað um aðstoð (námslán til framfærslu/skólagjalda) jafn lengi og hann naut aðstoðar í því námi. Fái námsmaður tungumálanámið metið til styttingar á nýju námi kemur það til styttingar á þeim tíma sem námsmaður á ekki rétt á aðstoð.

Lánshæfi undirbúningsnáms í tungumálum er háð því að um sé að ræða skipulagt nám sem talist getur nægjanlega veigamikið að því er varðar eðli og uppbyggingu að mati stjórnar sjóðsins (a.m.k. 15 kennslustundir á viku). Einungis er veitt lán einu sinni til undirbúningsnáms í tungumálum.

Áður en lán vegna undirbúningsnáms í tungumálum er afgreitt að fullu þarf að liggja fyrir staðfesting á inngöngu í lánshæft nám í sama landi.

1.4 Upplýsingar um lánshæft nám

Á heimasíðu sjóðsins liggja fyrir leiðbeinandi upplýsingar um skóla og námsbrautir sem lánað hefur verið til. Ef sótt er um lán í skóla eða námsbraut sem sjóðurinn hefur ekki lánað til þarf stjórn sjóðsins að meta lánshæfi námsins. Námsmaður þarf þá að útvega ítarlegar upplýsingar um skólann og námsbrautina.

Sjóðnum er á hverjum tíma heimilt að endurskoða hvort skólar og námsbrautir séu lánshæfar hjá sjóðnum. Sjóðnum er jafnframt heimilt að óska eftir nýjum gögnum sem staðfesta að skóli eða námsbraut uppfylli kröfur sjóðsins um lánshæft nám, hvort sem um er að ræða innlenda eða erlenda skóla. Þó að skóli eða námsbraut hafi verið metin lánshæf telst það ekki loforð eða trygging fyrir því að svo verði áfram.

Yfirlit