Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

II. Kafli – Námsframvinda

2.1 Almennt

Almennt telst námsmaður í fullu námi ljúki hann 60 ECTS–einingum eða ígildi þeirra á skólaári í einum námsferli. Nýr námsferill hefst skipti námsmaður um skóla, námsgrein eða námsgráðu.

Veitt er að hámarki lán fyrir 30 ECTS-einingum á hverju misseri eða 20 ECTS-einingum á hverjum fjórðungi. Á sumarönn er veitt lán fyrir að hámarki 20 ECTS-einingum. Aldrei er veitt meira lán en fyrir 80 ECTS-einingum á hverju námsári. Framfærslulán fyrir 80 ECTS-einingum miðast við framfærslu námsmanns í 12 mánuði á ári.

Hámarksfjöldi eininga sem lánað er fyrir á einstökum námsbrautum tekur mið af fjölda eininga námsins samkvæmt skipulagi skóla samþykktu af stjórn sjóðsins. Einungis er tekið tillit til námskeiða sem nýtast til lokaprófs en metnar einingar úr fyrra námi teljast ekki til námsframvindu.

2.1.1 Sumartími

Nám á sumarönn tilheyrir undangengnu skólaári. Námsmaður þarf að ljúka að lágmarki 15 ECTS-einingum á sumarönn til að eiga rétt á sumarláni. Aldrei er veitt meira lán en sem nemur 20 ECTS-einingum á sumarönn og 80 ECTS-einingum samtals á hverju námsári. Sækja þarf sérstaklega um sumarlán. Til að eiga rétt á sérstöku skólagjaldaláni á sumarönn þarf námsmaður að ljúka a.m.k. 60 ECTS-einingum á námsárinu, sbr. gr. 4.5.

2.2 Lánshæfar einingar

Til að eiga rétt á námsláni þarf námsmaður að vera skráður í að lágmarki 22 ECTS-einingar til loka hvers misseris og ljúka að lágmarki 22 ECTS-einingum eða ígildi þeirra á hverju misseri eða samsvarandi hlutfalli á önn í fjórðungaskólum í einum námsferli. Einungis er heimilt að veita lán til náms í tveimur eða fleiri námsferlum á sömu önn ef námsmaður er að ljúka grunnháskólanámi og hefur fengið leyfi skóla til að hefja meistaranám í sama fagi. Sama gildir þegar námsmanni er gert af skóla að bæta við sig námskeiðum í lánshæfu grunnháskólanámi samhliða meistaranámi. Þessi heimild er háð því að námsmaður hafi ekki áður fullnýtt svigrúm sitt til námslána samkvæmt gr. 2.3.

Ljúki námsmaður 22 - 30 ECTS-einingum á misseri á hann rétt á láni vegna lokinna eininga, þ.e. allt að 30 ECTS-einingum.

Einungis er lánað einu sinni fyrir hverja lokna einingu nema í námi þar sem fjöldatakmarkanir eru, sbr. gr. 2.4.1.

Ef lánsréttur námsmanns á tilteknu námsstigi er undir lágmarks náms-framvindukröfum er heimilt að veita námsmanni lán sem nemur eftirstöðvum einingarréttar hans svo framarlega sem ljúki hann að lágmarki 22 ECTS- einingum á misseri eða samsvarandi hlutfalli á önn í fjórðungaskólum í einum námsferli.

2.3 Lánsréttur

Hver námsmaður getur fengið námslán fyrir allt að 480 ECTS-einingum samanlagt með þeim takmörkunum sem leiðir af skiptingu lánsréttar milli námsstiga. Í gr. 2.3.1 - 2.3.5 er gerð nánari grein fyrir skiptingu lánsréttar milli námsstiga.

2.3.1 Grunnnám

Námsmaður á rétt á láni fyrir 180 ECTS-einingum í grunnnámi. Með grunnnámi er átt við sérnám og grunnháskólanám.

2.3.2 Meistaranám

Námsmaður á rétt á láni fyrir 120 ECTS-einingum í meistaranámi eða sambærilegu námi að loknu þriggja ára háskólanámi samkvæmt skipulagi skóla samþykktu af stjórn sjóðsins. Í bandarískum háskólum er þó miðað við nám eftir fjögur ár. Allt að eins árs starfstengt viðbótarháskólanám sem ekki lýkur með æðri prófgráðu, getur talist vera nám á meistarastigi.

2.3.3 Doktorsnám

Námsmaður á rétt á láni fyrir 60 ECTS-einingum í doktorsnámi.

2.3.4 Sameiginlegt svigrúm

Að auki á hver námsmaður rétt á láni fyrir 120 ECTS-einingum til viðbótar að eigin vali á grunn-, meistara- eða doktorsstigi.

2.3.5 Gildissvið eldri reglna

Námsmaður skal njóta réttar hvað varðar námslengd skv. kafla 2.3 samkvæmt þeim reglum sem í gildi voru við upphaf námsferils hans. Upphaf námsferils telst þegar námsmaður skilar lágmarks námsárangri í námsferli og er með umsókn hjá sjóðnum á sama námsári. Heimild þessi fellur niður ef námsmaður hefur nýjan námsferil eða gerir lengra hlé en eitt ár frá námi. Nýr námsferill hefst skipti námsmaður um skóla, námsgrein eða námsgráðu.

2.4 Aukið svigrúm í námi

Þeir námsmenn sem ekki uppfylla skilyrði sjóðsins um lágmarks námsframvindu á misseri eða önn í fjórðungaskólum, sbr. gr. 2.2, geta sótt um undanþágu vegna aðstæðna sem tilgreindar eru í gr. 2.4.1 - 2.4.7. Í þeim tilfellum sem undanþágur eru samþykktar á grundvelli gr. 2.4.1 - 2.4.6 miðast lánsréttur við lágmarks einingafjölda, þ.e. 22 ECTS-einingar á misseri í misseraskólum eða 15 ECTS-einingar á önn í fjórðungaskólum. Þær einingar sem nemandi fær vegna aukins svigrúms í námi dragast frá einingarrétti námsmanns, sbr. gr. 2.3.

Þar sem kveðið er á um afhendingu læknisvottorðs í þessum kafla áskilur sjóðurinn sér heimild til þess að óska eftir því að trúnaðarlæknir sjóðsins á hverjum tíma afli upplýsinga hjá viðkomandi lækni um innsent vottorð og gefi umsögn um efni þess. Verði slíkar upplýsingar ekki veittar getur sjóðurinn litið svo á að fullnægjandi umsókn um aukið svigrúm í námi hafi ekki verið skilað.

2.4.1 Almennt

Námsmaður sem lýkur fleiri en 30 ECTS-einingum á misseri á rétt á að nýta umframeiningarnar á öðru misseri sama námsárs eða flytja umframeiningarnar á síðari námsár í sama námsferli svo framarlega sem lágmarks árangri sé náð á því misseri, sbr. gr. 2.2. Nýr námsferill hefst skipti námsmaður um skóla, námsgrein eða námsgráðu.

Að loknu skólaári (haust- eða vormisseri í misseraskólum og haust-, vetrar- eða vorönn í fjórðungaskólum) skal námsárangur gerður upp. Í þeim tilfellum þar sem námsmaður lýkur ekki lágmarks námsárangri á hverju misseri eða önn er heimilt að taka tillit til heildarnámsárangurs skólaársins og veita lán á einstökum misserum/önnum í samræmi við einingaskil ef öllum eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:

    1. Námsmaður hefur sótt um lán fyrir öllum misserum eða önnum skólaársins.
    2. Samanlagður námsárangur skólaársins er að lágmarki 44 ECTS-einingar í misseraskólum eða samsvarandi hlutfall í fjórðungaskóla.
    3. Námsmaður hafi verið skráður í að minnsta kosti 22 ECTS-eininga nám á hverju misseri eða samsvarandi hlutfall í fjórðungaskólum til loka annar.

Aldrei er veitt meira lán en sem nemur 30 ECTS-einingum á einu misseri eða 20 ECTS-einingum á önn í fjórðungaskóla.

Missi námsmaður rétt til eininga sem hann hafði áður áunnið sér og fengið lán til að ljúka telst hann skulda þann einingafjölda sem hann missti rétt til og skal skuld hans þá dregin frá þeim einingum sem hann lýkur áður en lánsréttur hans er metinn. Einingaskuld sem er orðin meira en tíu ára gömul skal þó ekki meðtalin. Þetta á m.a. við þegar endurtaka þarf nám vegna fjöldatakmarkana sem kveðið er á um í reglugerð viðkomandi skóla, eða vegna þess að námsmaður gerir of langt hlé á námi samkvæmt reglum skóla. Þó er heimilt að veita námsmanni, sem skilað hefur fullnægjandi árangri á fyrsta misseri en ekki komist áfram í námi eingöngu vegna reglna um fjöldatakmarkanir, lán til þess að endurtaka misserið einu sinni.

Ef námsmaður hefur fengið lán í skiptinámi erlendis (t.d. Erasmus eða Nordplus) og einingarnar í skiptináminu nýtast ekki að fullu til lokaprófs, er heimilt á lokaönn námsins að veita undanþágu frá gr. 2.1 og samþykkja lán fyrir viðbótareiningum umfram hámarkseiningafjölda námsins samkvæmt skipulagi skóla. Þessi undanþága heimilar að veitt sé lán fyrir 22 ECTS-einingum í misseraskóla og 15 ECTS-einingum á einni önn í fjórðungaskóla, ljúki námsmaður að lágmarki þeim einingafjölda.

2.4.2 Mat á ástundun

Heimilt er að veita lán að fengnu ástundunarvottorði ef námsmaður tekur einungis próf einu sinni á ári eða eftir lengri tíma. Lán er þá veitt í samræmi við árangur ef námsframvinda er metin í vottorðinu. Heimilt er að veita lán út á 30 ECTS-einingar ef skýrt kemur fram í vottorði að viðkomandi hafi stundað fullt nám. Þegar niðurstaða námsársins liggur fyrir er námsframvindan endurmetin. Komi þá í ljós að námsframvinda er ekki fullnægjandi á námsárinu er framfærslulán vormisseris ekki afgreitt og fyrirframgreidd skólagjaldalán vegna vormisseris endurkrafin sem ofgreidd lán, sbr. gr. 5.7.

Sé námsmaður að ljúka námi er ekki heimilt að afgreiða lán að fullu á námsárinu fyrr en staðfesting á námslokum liggur fyrir.

2.4.3 Veikindi

Skilyrði fyrir því að námsmaður eigi rétt á auknu svigrúmi samkvæmt þessari grein er að hann hafi áður skilað fullnægjandi árangri í lánshæfu námi eða hann skili fullnægjandi árangri á næsta misseri eftir að hann þarf á svigrúminu að halda.

Heimilt er við mat á námsframvindu að taka tillit til þess ef námsmaður veikist verulega á námstíma. Er þá heimilt að bæta allt að 6 ECTS-einingum í misseraskólum og samsvarandi hlutfalli í fjórðungaskólum við loknar einingar þannig að lánsréttur miðist við lágmarks einingafjölda, sbr. gr. 2.4. Veikist námsmaður á seinni hluta annar eða í prófum er heimilt að bæta allt að 22 ECTS-einingum í misseraskólum og samsvarandi hlutfalli í fjórðungaskólum við loknar einingar þannig að lánsréttur miðist við lágmarks einingafjölda, sbr. gr. 2.4. Í þeim tilfellum þar sem námsmaður verður að hverfa frá námi vegna veikinda er heimilt að veita hlutfallslegt lán fyrir þann tíma sem námsmaður stundaði nám og staðfestur er af skólayfirvöldum, að hámarki 22 ECTS-einingar í misseraskólum og samsvarandi hlutfall í fjórðungaskólum. Í þeim tilfellum þar sem námsmaður hefur greitt skólagjöld fyrir tímabilið og fær þau ekki endurgreidd frá skóla (staðfest af umræddum skóla), verður hann ekki endurkrafinn um skólagjaldalánið eins og um ofgreidd lán hefði verið að ræða. Hámarkssvigrúm eykst ekki að jafnaði vegna þessa.

Undanþága þessi getur einnig átt við ef alvarleg veikindi maka, barns eða foreldra námsmanns hafa kallað á innlögn á sjúkrahús eða sambærilega umönnun og þau raskað verulega högum námsmannsins.

Skilyrði fyrir veitingu undanþágu vegna veikinda námsmanns er að námsmaður framvísi læknisvottorði þar sem greinilega komi fram á hvaða tíma vitjað var læknis og á hvaða tímabili námsmaður var óvinnufær vegna veikinda að mati læknis. Skilyrði fyrir veitingu undanþágu vegna veikinda maka, barns eða foreldra er að læknisvottorði sé framvísað þar sem greinilega komi fram hvenær læknis var vitjað, að um veruleg veikindi hafi verið að ræða og hvenær umönnunar var þörf. Með sambærilegum hætti er heimilt að taka tillit til andláts nánustu aðstandenda við mat á námsframvindu. Til nánustu aðstandenda samkvæmt þessari reglu skulu t.a.m. teljast maki, börn og foreldrar námsmanns, systkini námsmanns og börn þeirra.

Námsmaður sem hefur fengið undanþágu vegna veikinda en skilað minna en 16 ECTS-einingum í misseraskólum og samsvarandi hlutfalli í fjórðungaskólum á ekki rétt á að tekið sé tillit til veikinda að nýju fyrr en hann hefur skilað námsárangri sem hann vantaði til að ljúka framangreindum 16 ECTS-einingum í misseraskólum og samsvarandi hlutfalli í fjórðungaskólum.

2.4.4 Barneignir

Almennt skilyrði fyrir því að námsmaður eigi rétt á auknu svigrúmi samkvæmt þessari grein er að hann hafi skilað fullnægjandi námsárangri í lánshæfu námi á einu misseri síðustu 12 mánuði áður en hann þarf á svigrúminu að halda eða hann skili fullnægjandi árangri á næsta misseri á eftir.

Eignist námsmaður barn á námstíma er heimilt að bæta allt að 16 ECTS-einingum í misseraskólum og samsvarandi hlutfalli í fjórðungaskólum við loknar einingar þegar lán til hans er reiknað og miðast þá lánsréttur hans við lágmarks einingafjölda, sbr. gr. 2.4. Hámarkssvigrúm eykst ekki vegna þessa. Móðir getur þó átt rétt á auknu svigrúmi allt að 3 mánuðum fyrir fæðingu barns vegna veikinda á meðgöngu. Fæðingarvottorð/læknisvottorð þarf að liggja fyrir í slíku tilviki. Námsmanni er heimilt að nýta þetta svigrúm fram að 12 mánaða aldri barns.

Skilyrði þessarar undanþágu er að námsmaður fari með forsjá barns og barnið eigi lögheimili hjá honum eða búi sannanlega hjá honum á námstíma. Samanlagt skal þó viðbótarsvigrúm beggja foreldra vegna barneignar ekki vera hærra en 16 ECTS-einingar í misseraskólum og samsvarandi hlutfall í fjórðungaskólum.

2.4.5 Örorka

Geti námsmaður vegna örorku sinnar ekki skilað lágmarks námsárangri, sbr. gr. 2.2. er heimilt að bæta allt að 13 ECTS-einingum í misseraskólum og samsvarandi hlutfalli í fjórðungaskólum við loknar einingar og miðast þá lánsréttur hans við lágmarks einingafjölda, sbr. gr. 2.4.

Skilyrði fyrir undanþágu samkvæmt þessari grein er að fyrir liggi mat læknis á að læknisfræðileg örorka viðkomandi sé a.m.k. 75%. Sækja þarf sérstaklega um fyrrnefnda undanþágu til sjóðsins. Með umsókn þarf að fylgja læknisvottorð.

2.4.6 Lesblinda og aðrir sértækir námsörðugleikar

Geti námsmaður vegna lesblindu eða annarra sértækra námsörðugleika ekki skilað lágmarks námsárangri, sbr. gr. 2.2 er heimilt að bæta allt að 13 ECTS-einingum í misseraskólum eða samsvarandi hlutfalli í fjórðungaskólum við loknar einingar og miðast þá lánsréttur hans við lágmarks einingafjölda, sbr. gr. 2.4.

Skilyrði fyrir undanþágu samkvæmt þessari grein er að fyrir liggi staðfest vottorð/greining um námsörðugleika sem staðfestir að námsmaður geti ekki skilað lágmarks námsárangri vegna lesblindu eða annarra sértækra námsörðugleika að teknu tilliti til þess svigrúms sem skóli veitir viðkomandi námsmanni til ástundunar náms, próftöku o.s.frv. Þá skal einnig fylgja staðfesting skóla sama efnis. Sækja þarf sérstaklega um fyrrnefnda undanþágu til sjóðsins.

2.4.7 Einingaskil við sérstakar aðstæður og námslok

Námsmaður sem á einungis kost á því að stunda nám í 10 ECTS-eininga eða 20 ECTS-eininga áföngum á tiltekinni önn, getur fengið lán í hlutfalli við loknar einingar svo fremi sem hann ljúki að minnsta kosti 20 ECTS-einingum. Skilyrði þessarar undanþágu er að námsmaður sé skráður í fullt nám (30 ECTS-einingar) til loka annar.

Námsmaður sem á eftir minna en sem nemur 22 ECTS-einingum af einu misseri á lokamisseri í námi getur fengið lán í réttu hlutfalli við þann einingafjölda sem hann á ólokið, enda séu einingaskil ekki undir 12 ECTS-einingum.

Námsmaður sem ekki getur lokið 22 ECTS-einingum á misseri vegna skipulags skóla eða vegna mats á fyrra námi, getur fengið lán í réttu hlutfalli við þann einingafjölda sem hann lýkur, enda ljúki hann öllum einingum sem í boði eru og einingaskil ekki undir 15 ECTS-einingum.
Yfirlit