Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

III. Kafli – Grunnframfærsla og tekjur

3.1 Grunnframfærsla

3.1.1 Grunnframfærsla á Íslandi

Grunnframfærsla á námstíma á skólaárinu er miðuð við námsmann í fullu námi (60 ECTS-einingar á skólaárinu) og er sett fram i fylgiskjali I.

3.1.2 Grunnframfærsla í útlöndum

Grunnframfærsla í útlöndum á námstíma á skólaárinu er miðuð við landið/ borgina þar sem skólinn er staðsettur samkvæmt þeirri ákvörðun sem felst í fylgiskjali II og miðast við námsmann í fullu námi (60 ECTS-einingar á skólaárinu).

3.1.3 Grunnframfærsla skiptinema

Skiptinemar geta óskað eftir að grunnframfærsla þeirra taki mið af framfærslu í því landi þar sem skiptinámið er stundað og miðast útreikningar á framfærslu í nýju landi við gengi 1. apríl 2019. Þessi regla á ekki við um Erasmus- og Nordplus-styrkþega og aðra skiptinema sem njóta sambærilegra styrkja meðan á skiptináminu stendur.

3.1.4 Grunnframfærsla fjarnámsnema

Grunnframfærsla fjarnámsnema miðast við grunnframfærslu á Íslandi. Sama gildir varðandi viðbótarlán vegna húsnæðiskostnaðar, sbr. gr. 4.2.

3.2 Framfærsla námsmanns

Auk grunnframfærslu hafa þær aðstæður sem tilgreindar eru í gr. 4.2 – 4.6 áhrif á framfærslu námsmanns. Tekið er tillit til framfærslu barna yngri en 18 ára sem eru á framfæri námsmanns. Lán samkvæmt gr. 4.7 – 4.9 eru til viðbótar lánum til framfærslu námsmanns. Tekjur geta komið til frádráttar á þessum lánum samkvæmt ákvæðum gr. 3.3.

3.3 Tekjur
3.3.1 Tekjur

Tekjur námsmanns og maka (ef sótt er um makalán) á árinu 2019, eins og þær eru skilgreindar af stjórn sjóðsins, geta haft áhrif á veitta aðstoð á skólaárinu. Stundi námsmaður nám erlendis, eru tekjur hans yfirfærðar í mynt námslands miðað við gengi hinn 1. apríl 2019.

45% tekna námsmanns á árinu 2019 umfram 1.330.000 kr. koma til frádráttar á námsláni. Í þeim tilfellum þegar veitt eru makalán koma 45% sameiginlegra tekna hjóna/einstaklinga í skráðri sambúð á árinu 2019 umfram 1.995.000 kr. til frádráttar á námsláni. Frádrætti vegna tekna skal að jafnaði dreift jafnt á 60 ECTS-einingar.

3.3.2 Komið úr námshléi

Heimilt er að þrefalda frítekjumark námsmanns sem kemur af atvinnumarkaði, sbr. gr. 3.3.1, enda liggi fyrir að hann hafi ekki verið í námi s.l. 6 mánuði. LÍN áskilur sér rétt til að óska eftir gögnum því til staðfestingar.

3.3.3 Tekjuáætlun - skattframtal

Áður en til þess kemur að veita lán vegna náms á haustmisseri skal námsmaður skila inn upplýsingum um áætlaðar tekjur á árinu 2019.

Áður en til þess kemur að veita lán vegna náms á vormisseri skulu sjóðnum berast staðfestar skattframtalsupplýsingar vegna tekna á árinu 2019.

3.3.4 Endanlegt tekjutillit

Endanlegt tekjutillit á sér stað eftir álagningu skattayfirvalda. Séu tekjur lánþega þá áætlaðar skal sjóðurinn ákvarða honum námsaðstoð í samræmi við áætlunina. Ákvörðunin er endanleg nema lánþegi geri athugasemd við hana innan 30 daga frá því lánþega var kynnt ákvörðunin. Skal þá heimilt að endurskoða hana í samræmi við nýjar tekjuupplýsingar staðfestar af skattayfirvöldum.

3.3.5 Ófullnægjandi tekjuáætlun

Stjórn sjóðsins getur breytt ófullnægjandi tekjuáætlun.

3.4 Hvað telst til tekna?

3.4.1 Tekjur á árinu 2019

Allar tekjur sem mynda skattstofn á árinu 2019 teljast til tekna við útreikning á láni samkvæmt gr. 3.3.

3.4.2. Námsstyrkir

Skattskyldir náms- og rannsóknarstyrkir og kennslulaun, t.d. „teaching assistantship“ og „utbildningsbidrag“ reiknast sem tekjur, sbr. gr. 4.5.

3.4.3 Sérstakir námsstyrkir

Styrkir sem veittir eru á vegum Nordplus og Erasmus og annarra sambærilegra skiptinemasamtaka koma ekki til frádráttar á námsláni, sbr. grein 3.3.1.

3.4.4 Frádráttur frá tekjum

Til frádráttar tekjum koma;

    1. Skólagjöld sem námsmaður fær ekki lánað fyrir vegna þess að hann hefur fullnýtt skólagjaldarétt sinn skv. gr. 4.5 og
    2. föst afborgun námsláns sem til fellur og greidd er á aðstoðartímabilinu.

3.5 Upplýsingaskylda námsmanns og maka vegna tekna

Með undirritun umsóknar veita námsmaður og maki sjóðnum heimild til að kanna skattframtöl þeirra á þeim tíma sem lán eru veitt eða endurgreiðsla lána stendur yfir. Tekjuupplýsingar skulu gefnar upp samkvæmt beiðni sjóðsins.

Yfirlit