Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

IV. Kafli - Lánaflokkar

4.1 Almennar forsendur

Lán taka almennt mið af aðstæðum, fjölskyldustærð og búsetu, eins og þær eru skráðar í þjóðskrá 1. september ár hvert. Ef aðstæður breytast á skólaárinu eftir 1. september er þó tekið tillit til þess við ákvörðun lána samkvæmt gr. 4.2 - 4.4 og 4.9 og mun það leiða til hækkunar eða lækkunar á þeim lið eins og við á.

4.2 Lán með tilliti til húsnæðis

Námsmenn sem uppfylla skilyrði sjóðsins til þess að fá lán til framfærslu eiga rétt á láni sem nemur grunnframfærslu sbr. gr. 3.1. Námsmenn geta einnig átt rétt á viðbótarláni vegna húsnæðiskostnaðar ef þeir búa í leigu- eða eigin húsnæði. Sé óskað eftir slíku viðbótarláni skal námsmaður sanna eðlilegar leigugreiðslur með afriti af greiðslumiða til skattayfirvalda eða staðfesta íbúðareign með vottorði frá Þjóðskrá/þinglýsingarvottorði.

Námsmenn sem ekki búa í leigu- eða eigin húsnæði eiga ekki rétt á viðbótarframfærslu vegna húsnæðiskostnaðar, sbr. gr. 4.2.1 - 4.2.3.

Fjárhæð viðbótarláns vegna húsnæðiskostnaðar tekur mið af fjölskylduaðstæðum námsmanns, það er hjúskaparstöðu og fjölda barna á heimili. Þær fjárhæðir sem um ræðir eru nánar tilgreindar í fylgiskjali I vegna náms á Íslandi og fylgiskjali II vegna náms erlendis.

4.2.1 Einstaklingar sem búa í leigu- eða eigin húsnæði

Einstaklingur, sem býr einn í leigu- eða eigin húsnæði á rétt á viðbótarláni vegna húsnæðiskostnaðar að fjárhæð kr. 11.291 á hverja ECTS-einingu vegna náms á Íslandi. Sambærilegt viðbótarlán vegna húsnæðiskostnaðar í öðru landi er tilgreint í fylgiskjali II.

4.2.2 Sambúðarfólk sem býr í leigu- eða eigin húsnæði

Námsmaður í hjónabandi eða skráðri sambúð sem býr í leigu- eða eigin húsnæði á rétt á viðbótarláni vegna húsnæðiskostnaðar að fjárhæð kr. 7.979 á hverja ECTS-einingu vegna náms á Íslandi. Sambærilegt viðbótarlán vegna húsnæðiskostnaðar í öðru landi er tilgreint í fylgiskjali II.

4.2.3 Foreldrar sem búa í leigu- eða eigin húsnæði

a. Námsmaður í sambúð sem býr í leigu- eða eigin húsnæði
Námsmaður í hjónabandi eða skráðri sambúð sem er með eitt barn á framfæri og býr í leigu- eða eigin húsnæði á rétt á viðbótarláni vegna húsnæðiskostnaðar að fjárhæð kr. 9.334 á hverja ECTS-einingu vegna náms á Íslandi. Sambærilegt viðbótarlán vegna húsnæðiskostnaðar í öðru landi er tilgreint í fylgiskjali II.

Námsmaður í hjónabandi eða skráðri sambúð sem er með tvö börn eða fleiri á framfæri og býr í leigu- eða eigin húsnæði á rétt á viðbótarláni vegna húsnæðiskostnaðar að fjárhæð kr. 10.087 á hverja ECTS -einingu vegna náms á Íslandi. Sambærilegt viðbótarlán vegna húsnæðiskostnaðar í öðru landi er tilgreint í fylgiskjali II.

b. Einstætt foreldri sem býr í leigu- eða eigin húsnæði
Einstætt foreldri með eitt barn á framfæri, sem býr í leigu- eða eigin húsnæði á rétt á viðbótarláni vegna húsnæðiskostnaðar að fjárhæð kr. 18.668 á hverja ECTS-einingu vegna náms á Íslandi. Sambærilegt viðbótarlán vegna húsnæðiskostnaðar í öðru landi er tilgreint í fylgiskjali II.

Einstætt foreldri með tvö börn eða fleiri á framfæri, sem býr í leigu- eða eigin húsnæði á rétt á viðbótarláni vegna húsnæðiskostnaðar að fjárhæð kr. 20.175 á hverja ECTS-einingu vegna náms á Íslandi. Sambærilegt viðbótarlán vegna húsnæðiskostnaðar í öðru landi er tilgreint í fylgiskjali II.

Til þess að fá viðbótarlán vegna húsnæðiskostnaðar samkvæmt a) og b) lið í þessari grein þarf námsmaður að uppfylla það skilyrði að fara með forsjá barns (alfarið eða sameiginlega).

4.2.4 Námsmenn sem búa hjá efnalitlum foreldrum/foreldri

Heimilt er að veita námsmanni sem býr í foreldrahúsum, viðbótarlán vegna húsnæðis eins og hann væri í leigu- eða eigin húsnæði, ef tekjur foreldra eða foreldris og sambúðaraðila foreldris, ef því er að skipta, eru undir viðmiðunarmörkum. Viðmiðunarmörk í þessu sambandi svara til kr. 4.236.000 hjá einstæðu foreldri eða kr. 8.472.000 hjá hjónum eða sambúðarfólki sbr. grein 4.2.2.

4.3 Viðbótarlán vegna barna

Námsmaður getur átt rétt á viðbótarláni vegna framfærslu barna undir 18 ára aldri. Fjárhæð viðbótarláns fyrir hvert barn á framfæri námsmanns er kr 5.340 fyrir hverja lokna ECTS-einingu.

Námsmaður á rétt á viðbótarláni vegna meðlags sem hann greiðir svo sannanlegt sé vegna barna undir 18 ára aldri. Fjárhæð viðbótarláns vegna meðlags er kr. 5.340 fyrir hverja lokna ECTS-einingu fyrir hvert barn sem námsmaður sannanlega greiðir meðlag með.

Námsmaður fær ekki viðbótarlán með barni/börnum nema hann fari með forsjá barns eða að hann greiði meðlag með barni. Ekki er heimilt að greiða bæði viðbótarlán vegna framfærslu og viðbótarlán vegna meðlags til sama námsmanns vegna sama barns.

4.4 Lán vegna maka

Aðstæður sem geta leitt til þess að framfærsla námsmanns í hjónabandi /skráðri sambúð hækkar vegna maka eru m.a. eftirfarandi:

1. Veikindi eða örorka maka samkvæmt læknisvottorði sem sýnir fram á að maki sé óvinnufær með öllu.
2. Námsmaður og maki hafa langveikt eða fatlað barn á framfæri sínu og maki starfar ekki utan heimilis vegna umönnunar barnsins. Skilyrði er að barnið hafi lögheimili hjá námsmanni og maka og að læknisvottorði sé framvísað.
3. Námsmaður og maki eru búsett erlendis og hafa barn á framfæri sínu og maki á ekki rétt á atvinnuleyfi í námslandinu.

Ef veitt er lán vegna maka, bætist við 50% af grunnframfærslu námsmanns, viðbótarframfærslu vegna búsetu og viðbótarframfærslu barna. Tekjur maka koma til frádráttar á láninu, sbr. gr. 3.3.1 og 3.3.2.

Ekki er veitt makalán ef maki er sjálfur lánþegi á sömu önn.

Sjóðurinn áskilur sér heimild til þess að óska eftir því að trúnaðarlæknir sjóðsins á hverjum tíma afli upplýsinga hjá viðkomandi lækni um innsent læknisvottorð og gefi umsögn um efni þess. Verði slíkar upplýsingar ekki veittar getur sjóðurinn litið svo á að fullnægjandi umsókn hafi ekki verið skilað.

4.5 Lán vegna skólagjalda

Lán vegna skólagjalda að frádregnum óskattskyldum skólagjaldastyrk eru veitt til grunnnáms (til grunnnáms telst sérnám og grunnháskólanám), meistaranáms og doktorsnáms, sbr. gr. 2.3. Samanlögð heildarupphæð sem hægt er að fá til skólagjaldalána í öllum námsferlum er kr. 3.500.000 vegna náms á Íslandi. Samanlögð heildarupphæð skólagjaldalána vegna náms erlendis er tilgreind í fylgiskjali III eftir námslöndum.

Ef nám er skipulagt líkt og læknisfræðinám, þ.e. samfellt nám lengra en 5 ár, er heimilt að bæta við framangreint skólagjaldahámark á 5. ári náms til ráðstöfunar á 5. eða 6. námsári, allt að kr. 1.500.000 eða ígildi þess í erlendri mynt miðað við gengi 1. apríl 2019.

Fyrir þá sem stunda grunnnám gildir að aldrei er veitt hærra skólagjaldalán á hverju námsári en sem nemur 1/3 af heildarupphæð til skólagjaldalána í námslandinu. Árlegt hámarkslán til skólagjalda í grunnnámi á Íslandi er því kr. 1.166.667 og í grunnnámi erlendis sama hlutfall (1/3) af heildarupphæð til skólagjaldalána eins og tilgreint er í fylgiskjali III.

Ef lánþegi skiptir um námsland, er reiknað út hversu hátt hlutfall hann hafði áður nýtt sér af skólagjaldahámarki fyrra námslands og það hlutfall notað áfram í næsta námslandi þegar svigrúm fyrir frekara skólagjaldaláni er fundið.

Einungis er veitt lán vegna árlegra skólagjalda umfram kr. 75.000 sem námsmaður greiðir svo sannanlegt sé. Eftirfarandi kostnaður er ekki innifalinn í skólagjöldum; námsferðir eða aðrar ferðir, gisting, fæði, tölvu- eða annar tækjabúnaður, efnis- eða bókakostnaður eða annar sambærilegur kostnaður. Sjóðurinn áskilur sér rétt til að óska eftir sundurliðun skólagjalda og þar sem við á draga frá skólagjaldaláninu allan framangreindan kostnað áður en skólagjaldalán er afgreitt.

Einungis er heimilt að veita skólagjaldalán fyrir námi í einum námsferli á hverju misseri eða /önn námsársins. Ennfremur er almennt ekki heimilt að veita skólagjaldalán vegna námskeiða sem tekin eru utan námsbrautar í námi sem LÍN hefur ekki viðurkennt sem lánshæft.

Námsmaður verður að skila lánshæfum námsárangri, sbr. gr. 2.2, til að eiga rétt á skólagjaldaláni á námstímanum. Skólagjaldalán eru veitt fyrir hvert misseri/fjórðung námsársins þegar sjóðnum hefur borist staðfesting á að námsmaður hafi lokið lánshæfum námsárangri.

Heimilt er að greiða út lán vegna skólagjalda í upphafi annar/misseris til annarra námsmanna en fyrsta árs nema. Aldrei er greitt út hærra skólagjaldahlutfall fyrirfram við upphaf misseris en sem nemur fullu námi (30 ECTS-einingar) á því misseri, en heimilt að endurskoða það þegar námsframvinda liggur fyrir og uppgjör láns á því misseri/önn stendur yfir.

Sömu reglur gilda um lánsrétt milli námsstiga og hvernig lánseiningar dragast frá einingarétti, sbr. gr. 2.3, þó svo námsmaður þiggi eingöngu námslán fyrir skólagjöldum.

Vakin er athygli á því að tekjur námsmanns geta haft áhrif á upphæð skólagjaldalána, sbr. gr. 3.3 og 3.4. Þa er einnig vakin athygli á því að nemandi verður að eiga lánsrétt á því námsstigi sem hann stundar nám á til þess að eiga rétt á skólagjaldaláni.

4.6 Lán vegna röskunar á stöðu og högum námsmanns

Heimilt er að veita námsmanni aukalán sem samsvarar framfærslu fyrir allt að 7 ECTS-einingum að teknu tilliti til fjölskyldustærðar verði ófyrirsjáanleg röskun á stöðu og högum námsmanns og reglur þessar ná ekki til hennar að öðru leyti. Á þetta t.d. við þegar námsmanni verður, vegna alvarlegra veikinda, örorku sinnar, framfærslu barna sinna eða maka eða af öðrum ástæðum, illmögulegt að stunda nám sitt að fullnýttri lánsheimild. Hafa skal hliðsjón af þeim bótum sem námsmaður fær samkvæmt gildandi tryggingalöggjöf.

Heimilt er samkvæmt þessari grein að veita námsmanni sérstakt lán vegna aukaferðar ef hann þarf skyndilega að fara heim vegna alvarlegra veikinda eða andláts nánustu aðstandenda. Nauðsynlegt er að leggja fram nákvæmar upplýsingar um ástæður ferðar ásamt viðeigandi læknisvottorði eða dánarvottorði. Til nánustu aðstandenda skulu t.a.m. teljast maki, börn og foreldrar námsmanns, systkini námsmanns og börn þeirra. Ef slíkt aukalán er veitt greiðist það út með framfærsluláni, sbr. gr. 5.2.1.

4.7 Lán vegna sjúkratrygginga

Námsmenn sem greiða háar sjúkratryggingar geta sótt um lán til að mæta þeim kostnaði. Við mat á hæfilegum kostnaði vegna sjúkratrygginga er höfð hliðsjón af upplýsingum frá íslensku tryggingafélögunum. Ef veitt er lán vegna sjúkratrygginga er það einungis fyrir þeim hluta sem er umfram 5% af grunnframfærslu að teknu tilliti til fjölskyldustærðar og búsetu, en þó að hámarki kr. 350.000 á námsárinu. Heimilt er að veita aukalán vegna sjúkrakostnaðar erlendis sem námsmaður hefur að hluta til fengið endurgreiddan hjá Tryggingastofnun ríkisins. Við afgreiðslu slíkrar umsóknar skal tekið tillit til þess hvort námsmaður hafi keypt eðlilegar sjúkratryggingar. Heimilt er að veita lán til greiðslu hæfilegs kostnaðar vegna mæðraskoðunar og ungbarnaeftirlits erlendis ef ljóst er að hvorki tryggingaraðili námsmannsins né viðkomandi sveitarfélag á Íslandi taki þátt í greiðslu kostnaðar. Einnig er heimilt á námstíma að veita lán til greiðslu ferðakostnaðar ef barnshafandi námsmaður eða maki námsmanns erlendis kýs, vegna óhóflegs kostnaðar erlendis, að fæða barn á Íslandi. Óheimilt er að taka tillit til sjúkrakostnaðar sem Tryggingastofnun ríkisins hefur synjað að greiða.

4.8 Vaxtastyrkur

Við útborgun lána fyrir framfærslukostnaði skal greiða kr. 290 í vaxtastyrk fyrir hverja ECTS-einingu sem lokið er. Komi í ljós við endurútreikning námsláns að loknu námsári að námsmanni hafi verið úthlutað of háum vaxtastyrk, er það leiðrétt með þeim hætti að ofgreiddur styrkur er færður sem lán á námsárinu.

4.9 Lán vegna ferðakostnaðar

4.9.1 Ferðakostnaður námsmanns, maka og barna

Lán vegna ferðakostnaðar miðast við ákveðna upphæð, sem er mismunandi eftir námslandi og námssvæði. Ef maki sækir einnig um lán á námsárinu á námsmaður ekki rétt á viðbótarláni vegna ferða maka og lán vegna ferða barna miðast þá við helming þeirra upphæða sem tilgreindar eru í gr. 4.9.2 og gr. 4.9.3.

4.9.2 Lán vegna ferða til námsstaðar erlendis

Ferðalán vegna náms erlendis ákvarðast þannig þegar sótt er um námslán á skólaárinu: Vegna hvers einstaklings er ferðalán til námsmanna og maka í Danmörku, Noregi og Svíþjóð kr. 45.000, en kr. 50.000 vegna námsmanna og maka annars staðar í Evrópu, kr. 65.000 í Norður- Ameríku og kr. 105.000 vegna námsmanns og maka annars staðar. Lán vegna ferða barna miðast við 10% af ofangreindum fjárhæðum ef barn er yngra en tveggja ára, 75% vegna barna á aldrinum tveggja til ellefu ára og 100% vegna barna sem eru tólf ára og eldri. Ekki er skilyrði að námsmaður framvísi gögnum vegna ferðar. Nordplus-, Erasmus- og aðrir skiptinemar sem njóta sambærilegra styrkja í námi sínu eiga ekki rétt á ferðaláni frá LÍN.

Ofangreindar fjárhæðir eru umreiknaðar í mynt námslands miðað við gengi 1. apríl 2019.

Einungis er veitt lán vegna ferðakostnaðar einu sinni á hverju námsstigi.

4.9.3 Lán vegna ferða til námsstaðar á Íslandi

Ferðalán vegna náms á Íslandi ákvarðast þannig þegar sótt er um námslán á skólaárinu: Vegna einstaklings og maka kr. 20.000, en lán vegna ferða barna miðast við 10% af ofangreindri upphæð ef barn er yngra en tveggja ára, 50% vegna barna á aldrinum tveggja ára til ellefu ára og 100% vegna barna sem eru tólf ára og eldri. Skilyrði þess að námsmenn á Íslandi eigi kost á ferðaláni er að þeir eigi lögheimili a.m.k. 100 km frá höfuðborgarsvæðinu eða öðru skólasvæði. Ekki er skilyrði að námsmaður framvísi gögnum vegna ferðar.

Einungis er veitt lán vegna ferðakostnaðar einu sinni á hverju námsstigi, sbr. gr. 2.3.

4.9.4 Greiðslutími ferðalána

Ferðalán greiðist út með framfærsluláni til þeirra sem hafa uppfyllt skilyrði sjóðsins um lágmarks námsframvindu, sbr. gr. 2.2.

Yfirlit