Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

IX. Kafli – Vafamál

9.1 Hlutverk stjórnar

Það er eitt af hlutverkum stjórnar að skera úr vafamálum er varða einstaka lánþega og öðrum málum. Ákvörðun stjórnar má vísa til málskotsnefndar, sbr. gr. 9.5.

Ákvarðanir stjórnar varðandi erindi sem berast sjóðnum skulu rökstuddar og tilkynntar skriflega, nema það sé augljóslega óþarft. Ákvörðun er bindandi eftir að hún er komin til aðila. Námsmanni eða öðrum þeim sem í hlut á er heimilt að fá mál endurupptekið, sbr. gr. 9.4, eða getur óskað eftir úrskurði málskotsnefndar, sbr. gr. 9.5. Um málsmeðferð að öðru leyti fer eftir stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

9.2 Málsmeðferð

Áður en stjórn sker úr vafamáli skulu sérstakar undirnefndir skipaðar úr hópi stjórnarmanna, endurgreiðslunefnd eða vafamálanefnd eftir atvikum, undirbúa og gera tillögur til stjórnar sjóðsins. Nefndin skal yfirfara afgreiðslu hliðstæðra mála og þau mál sem talin eru koma næst því máli sem er til ákvörðunar.

9.3 Rökstuðningur

Í rökstuðningi skal vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun sjóðsins er byggð á, lögum, reglugerðum, úthlutunarreglum eða bókun stjórnar eftir því sem við á. Að því marki, sem ákvörðun byggir á mati, skal í rökstuðningnum greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við matið.

9.4 Endurupptaka

Eftir að stjórn sjóðsins hefur tekið ákvörðun og tilkynnt aðila máls, á málsaðili rétt á því að mál hans sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

Beiðni um endurupptöku skal að jafnaði bera fram innan 3 mánaða frá tilkynningu til aðila máls um niðurstöðu stjórnar.

9.5 Málskotsnefnd

Menntamálaráðherra skipar málskotsnefnd þriggja manna. Nefndin sker úr um hvort ákvarðanir stjórnar séu í samræmi við ákvæði laga og reglugerða. Nefndin getur staðfest, breytt eða fellt úr gildi ákvarðanir stjórnar sjóðsins. Úrskurður nefndarinnar skal vera rökstuddur og er endanlegur á stjórnsýslustigi.

Kæra til málskotsnefndar skal berast innan 3 mánaða frá tilkynningu til aðila máls um niðurstöðu stjórnar.
Yfirlit