Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

Afborganir lána:

Borgað er af námslánum tvisvar á ári, föst afborgun á fyrri hluta árs og tekjutengd í september. Afborgun reiknast sem hlutfall af tekjum ársins á undan afborgunarári. Þetta hlutfall er 4,75% af R-lánum en 3,75% af S- og G-lánum. Tekjutengda greiðslan er fundin með því að reikna viðeigandi hlutfall af tekjum fyrra árs og draga síðan föstu greiðsluna frá. Það sem eftir stendur er tekjutengda greiðslan. Ef greiðandi er með tekjur undir ákveðnum mörkum reiknast ekki tekjutengd greiðsla.

Ástundunarvottorð:

Námsmenn í heilsársnámskeiðum geta sent ástundunarvottorð frá skóla eftir haustönn. Í vottorðinu þarf að koma fram mat skóla á námsframvindu í heilsársnámskeiðum. Að námskeiðinu loknu þarf síðan að koma vottorð um að námskeiðinu hafi verið náð ásamt heildarfjölda eininga.

ECTS-eining:

ECTS (European Credit Transfer and Accumulation System) er samræmdur mælikvarði á nám í aðildarríkjum Evrópusambandsins og annarra þátttakenda í Bolognaferlinu. 60 ECTS-einingar jafngilda fullu námsári.

Fjórðungur/önn:

Ef skólaári er skipt í þrjú tímabil, þ.e. haust-, vetrar- og vorönn er miðað við að námsmaður í fullu námi hafi stundað nám í þrjá fjórðunga (annir) á námsárinu. Sumarönn telst vera fjórði fjórðungurinn.

Fullt nám:

Námsmaður telst ljúka fullu námi ljúki hann 60 ECTS-einingum á skólaárinu eða 30 ECTS-einingum á misseri.

Grunnframfærsla:

Sú fjárhæð sem sýnir lánsþörf námsmanns í leiguhúsnæði á námstíma eins og hún er skilgreind af stjórn sjóðsins.

Lánsáætlun:

Eftir að námsmaður hefur sótt um námslán og skilað þeim gögnum sem sjóðurinn hefur óskað eftir, er reiknað út hversu hátt lán viðkomandi á rétt á miðað við tekjur og fjölskylduhagi. Lánsáætlun er birt rafrænt á „Mitt LÍN“ námsmanns og gefur hún kost á tímabundinni fyrirgreiðslu hjá viðskiptabanka námsmanns. Komi í ljós að lánsáætlun byggir á mistökum eða á röngum forsendum miðað við gildandi úthlutunarreglur þess námsárs sem sótt er um lán fyrir áskilur LÍN sér rétt til þess að breyta lánsáætlun til samræmis við þær reglur.

Lokun skuldabréfs:

Skuldabréfi er lokað við lok þess tímabils sem námsmaður þiggur námslán, þ.e. við lok síðasta aðstoðartímabils. Vextir reiknast á lánið frá og með lokun skuldabréfs og almennt er miðað við að endurgreiðslur þess hefjist tveimur árum síðar.

Maki:

Átt er við aðila sem er í hjúskap eða skráðri sambúð með lántaka.

Sambúð:

Sambúð tveggja einstaklinga sem skráðir eru í sambúð samkvæmt þjóðskrá.

Misseri:

Ef skólaári er skipt upp í tvö jafnlöng tímabil að jafnaði, haust- og vormisseri er miðað við að námsmaður í fullu námi hafi stundað nám í tvö misseri. Sumarmisseri telst vera þriðja misserið/önnin.

Námsár:

Er almennt 12 mánuðir og hefst að hausti og lýkur að sumri. Ef námsmaður stundar nám á sumarmisseri tilheyrir það misseri undangengnu námsári. Með námsári er í reglum þessum átt við námsárið 2019-2020.

Námsferill:

Námsbraut sem lýkur með tiltekinni prófgráðu. Nýr námsferill hefst skipti námsmaður um skóla, námsgrein eða prófgráðu.

Námslengd:

Réttur námsmanna til námslána er tiltekinn í ECTS-einingum. Hafi námsmaður t.d. lokið 60 ECTS-einingum á skólaárinu og fengið lán fyrir þeim einingum, dragast þær frá þeim einingafjölda sem hann á rétt á lánum til.

Ofgreidd lán:

Ef námsmaður fær afgreitt hærra lán en hann á rétt á, t.d. vegna vanáætlaðra tekna, fyrirframgreiddra skólagjaldalána, eða ef hann lýkur ekki lánshæfum námsárangri á önninni, ber honum að endurgreiða lánið sérstaklega.

Sérnám:

Starfstengt nám sem ekki er kennt á háskólastigi. Nám á framhaldsskólastigi til stúdentsprófs telst ekki til sérnáms.

Sjálfskuldarábyrgð:

Skuldarábyrgð sem er þannig háttað að ábyrgðarmanni er skylt að greiða skuldina á gjalddaga þótt kröfuhafi hafi engar tilraunir gert til að fá hana greidda hjá aðalskuldara.

Skólaár:

Er almennt 9 mánuðir og hefst að hausti og lýkur að vori. Með skólaári er í reglum þessum átt við skólaárið 2019-2020.

Svigrúm:

Möguleg lágmarks námsframvinda og heildarlánstími í tilteknu námi. Er meðal annars átt við fjölda eininga sem heimilt er að lána fyrir.

Umboðsmaður:

Námsmenn erlendis þurfa að hafa umboðsmann sem þeir gefa umboð til að sjá um mál sín gagnvart lánasjóðnum. Umboðsmaður þarf að hafa heimilisfang á Íslandi. Námsmaður gefur umboð með því að rita nafn og kennitölu umboðsmanns í umsókn sína. Ef skipta á um umboðsmann skal það gert í gegnum „Mitt LÍN“ eða með því að senda tölvupóst á lin@lin.is. Enginn annar en námsmaður getur tilkynnt sjóðnum um nýjan umboðsmann.

Umframeiningar:

Ef námsárangur námsmanns er umfram 30 ECTS-einingar á einhverju misseri skólaársins, þá á viðkomandi rétt á að nýta umframeiningarnar á öðru misseri sama skólaárs eða síðar í sama námsferli svo framarlega sem lágmarks árangri námsárs (22 ECTS) sé náð á misserinu.

Undirbúningsnám:

Nám til undirbúnings náms á háskólastigi.

Útreikningsmynt:

Námslán eru reiknuð í mynt þess lands þar sem námsmaður stundar nám sitt. Í ákveðnum tilvikum er útreikningsmynt önnur en mynt námslands.