Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

V. Kafli – Umsóknir og útborgun lána

5.1 Umsóknir um námslán
5.1.1 Rafrænar umsóknir

Sótt er um námslán rafrænt í gegnum „Mitt LÍN“ sem aðgengilegt er á heimasíðu sjóðsins www.lin.is eða í gegnum island.is.

5.1.2 Umsóknir og gildistími

Sækja skal sérstaklega um námslán fyrir hvert aðstoðarár. Umsóknarfrestir eru eftirfarandi:

    Haust 2019: Til og með 15. nóvember 2019.
    Vor 2020: Til og með 15. apríl 2020.
    Sumar 2020: Til og með 15. júlí 2020.

5.1.3 Fylgiskjöl og skilafrestur

Fylgiskjöl sem námsmanni ber að skila vegna umsókna eiga að berast sjóðnum eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að umsóknarfrestur rennur út. Að öðrum kosti er heimilt að líta svo á að námsmaður sé fallinn frá umsókn. Hið sama gildir um prófvottorð, þeim skal skilað eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að próftímabili lýkur.

5.1.4 Lánsáætlun

Á grundvelli upplýsinga námsmanns, m.a. um tekjur og fjölskylduhagi, fær hann útfyllta lánsáætlun frá sjóðnum. Eftir yfirferð lánsáætlunar ber námsmanni að láta sjóðinn vita ef þær upplýsingar sem lagðar eru til grundvallar reynast rangar.

Komi í ljós að lánsáætlun byggi á röngum upplýsingum, mistökum eða á röngum forsendum miðað við gildandi úthlutunarreglur þess námsárs sem sótt er um lán fyrir þá breytist lánsáætlunin til samræmis við þær reglur.

5.1.5 Umboðsmaður

Námsmaður erlendis skal hafa umboðsmann á Íslandi sem m.a. hefur umboð til undirritunar skuldabréfs fyrir hans hönd. Námsmaður ber ábyrgð á að LÍN hafi rétt heimilisfang og netfang umboðsmanns.

Samskipti við umboðsmann jafngilda samskiptum við námsmann hvort sem það er í formi tölvupósts, samtala eða bréfasendinga. Umboðsmaður ber því ábyrgð á að upplýsa þann námsmann sem hann hefur umboð fyrir um allar beiðnir um skil á gögnum til sjóðsins og um tilkynningar sem berast frá sjóðnum. Einnig skal hann upplýsa námsmanninn um önnur samskipti við sjóðinn sem skipt geta máli varðandi framgang umsóknarinnar eða veitingu námslána.

5.1.6 Skilyrði sem lánþegar þurfa að uppfylla

Skilyrði sem lánþegar þurfa m.a. að uppfylla til þess að teljast lánshæfir sem lántakendur hjá sjóðnum er að þeir séu ekki á vanskilaskrá né í vanskilum við sjóðinn þegar sótt er um nýtt lán, bú þeirra sé ekki í gjaldþrotameðferð og hafi ekki áður verið tekið til gjaldþrotaskipta, svo og að sjóðurinn hafi ekki áður þurft að afskrifa lán gagnvart viðkomandi.

Teljist námsmaður ekki lánshæfur samkvæmt framangreindu getur hann sótt um undanþágu frá þessari grein enda leggi hann fram tryggingar sem sjóðurinn telur viðunandi, s.s. veð eða sjálfskuldarábyrgðir þriðja aðila. Undanþága frá ofangreindum skilyrðum er þó aldrei veitt vegna námsmanns sem er í vanskilum við sjóðinn.

5.2 Útborgun námslána
5.2.1 Útborgun námslána

Útreikningur á námsláni og útgáfa lánsáætlana vegna skólaársins hefst í byrjun ágúst 2019. Þá verða skólagjaldalán, sbr. gr. 4.5, vegna haustannar afgreidd fyrirfram til þeirra sem áður hafa lokið lánshæfum námsárangri og óskuðu eftir slíkri fyrirframgreiðslu í lánsumsókn sinni.

Útborgun framfærslu- og ferðalána vegna haustannar og fyrirframgreiðsla skólagjalda vorannar hefst í byrjun janúar 2020 til þeirra sem uppfylla skilyrði sjóðsins um lágmarks námsframvindu á önninni, sbr. gr. 2.2. Með sömu framangreindum skilyrðum hefst útborgun framfærslulána vegna vorannar og fyrirframgreiðsla skólagjalda sumarannar í byrjun maí 2020. Útborgun framfærslulána vegna sumarannar hefst í byrjun ágúst 2020 til þeirra sem uppfylla framangreind skilyrði.

Skilyrði er að námsmaður hafi lagt fram gögn um námsárangur sinn, tekjuáætlun eða skattframtal og aðrar þær upplýsingar sem máli skipta. Lán greiðast inn á reikning í viðskiptabanka eða sparisjóði á Íslandi sem skal vera á nafni námsmanns.

Síðasti dagur útborgunar vegna námsársins 2019-2020 er til og með 15. janúar 2021. Eftir þann tíma er hvorki hægt að afgreiða lán né gera athugasemdir við afgreiðslu láns á námsárinu.

Skilyrði þess að námsmaður fái lán vegna skólagjalda, sbr. gr. 4.5, greitt út fyrirfram er að hann hafi áður lokið lánshæfum námsárangri. Aldrei er greitt út hærra skólagjaldahlutfall fyrirfram við upphaf misseris/annar en sem nemur fullu námi (30 ECTS-einingar) á því misseri eða sambærilegum einingum á önn í fjórðungaskólum. Heimilt er að endurskoða það þegar námsframvinda liggur fyrir og uppgjör láns á því misseri eða önn í fjórðungaskóla stendur yfir.

Skili námsmaður ekki tilskildum lágmarks árangri eftir viðkomandi skólaár eru fyrirframgreidd lán vegna skólagjalda endurkræf samkvæmt reglum um ofgreidd lán.

5.2.2 Útreikningur lána erlendis

Námslán eru að jafnaði reiknuð út í mynt viðkomandi námslands. Tekjum og styrkjum er breytt í útreikningsmynt námslands miðað við gengi 1. apríl 2019. Þegar lán eða hlutar þess koma til útborgunar er upphæðinni sem greiða á út breytt í íslenskar krónur miðað við daggengi á útborgunardegi.

5.2.3 Staðfesting á tekjum

Námsmenn skulu skila staðfestingu eða breytingu á fyrri áætlun vegna tekna á árinu 2019 áður en lán er greitt út. Ef verulegur munur reynist vera á þeirri áætlun og tekjum námsmanns og maka er heimilt að gjaldfella lánið.

5.2.4 Skuldabréf og bankareikningur

Útborgun lána er háð því skilyrði að lánþegi hafi gefið út skuldabréf í eigin nafni til tryggingar láninu. Lánið greiðist inn á reikning viðkomandi lánþega sem skal vera á hans eigin nafni í banka eða sparisjóði.

5.3 Um ábyrgðir á námslánum og réttindi og skyldur ábyrgðarmanna
5.3.1 Eðli sjálfskuldarábyrgðar

Um þær ábyrgðir sem veittar hafa verið eftir gildistöku laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn gilda þau lög, auk þess sem hér kemur fram.

Þeir sem gerast ábyrgðarmenn að námsláni takast á hendur sjálfskuldarábyrgð á námslánaskuldinni en slík ábyrgð gerir ábyrgðarmanni skylt að greiða skuldina sem ábyrgð er fyrir strax og í ljós kemur að lántakandi hefur ekki staðið við skuldbindingar sínar um að greiða af láninu.

Sjóðurinn getur innheimt ábyrgðina beint hjá ábyrgðarmanni og þarf ekki að gera sérstakar tilraunir til að fá skuldina greidda hjá lántakanda áður. Þó getur sjóðurinn ekki gengið að ábyrgðarmanni fyrr en staðreynt hefur verið að lántakandi hafi ekki greitt af láninu á gjalddaga. Þetta á þó ekki við verði lántakandi úrskurðaður gjaldþrota en þá fellur lánið allt í gjalddaga í samræmi við lög um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.

Sjóðurinn getur látið gera aðför (fjárnám) til fullnustu skuldarinnar hjá sjálfskuldarábyrgðarmanni án undangengins dóms eða réttarsáttar.

Sjálfskuldarábyrgð skal ætíð bundin við ákveðna hámarksfjárhæð sem breytist í samræmi við vísitölu neysluverðs en auk þess tekur sjálfskuldarábyrgðin til greiðslu vaxta, dráttarvaxta og alls kostnaðar sem leiða kann af vanskilum skuldarinnar þar með talin réttargjöld og innheimtuþóknun.

Tilnefnd ábyrgðarfjárhæð ábyrgðarmanns miðast við tilgreinda vísitölu og skal að jafnaði ekki vera hærri en 7,0 m.kr. Ábyrgðarmanni er þó heimilt að veita ábyrgð umfram framangreinda hámarksábyrgð vegna láns sem námsmanni reiknast á því námsári sem uppreiknuð ábyrgð hans nær 7,0 m.kr. Lágmarks ábyrgð er 100 þús.kr.

5.3.2 Skilyrði sem ábyrgðarmenn þurfa að uppfylla

Ábyrgðarmaður staðfestir með undirskrift sinni á skuldabréf eða ábyrgðaryfirlýsingu að hann hafi kynnt sér ákvæði skuldabréfsins og niðurstöðu greiðslumats og ef við á yfirlit úr vanskilaskrá.

Ábyrgðarmenn skulu vera orðnir 18 ára og fjárráða. Ábyrgðarmenn skulu ekki vera eldri en 50 ára nema um sé að ræða foreldra námsmanns. Ábyrgð lögpersónu í stað einstaklings er háð samþykki stjórnar sjóðsins og að um sé að ræða opinbera stofnun eða fjármálastofnun sem Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með. Sjóðnum skal þá heimilt, með samþykki lánþega, að innheimta gjald fyrir ábyrgðaraðilann við útborgun lánsins. Að öðru leyti gilda um ábyrgð lögpersónu sömu reglur og almennt gilda um sjálfskuldarábyrgð einstaklinga.

Ábyrgðarmenn skulu að jafnaði vera íslenskir ríkisborgarar með lögheimili á Íslandi. Óheimilt er að samþykkja ábyrgðarmenn fyrir námsláni sem eru á vanskilaskrá, í vanskilum við sjóðinn eða bú þeirra sé í, eða hafi verið tekið til gjaldþrotameðferðar. Ábyrgðarmaður skal jafnframt undirgangast mat á lánshæfi sem þarf að vera fullnægjandi að mati sjóðsins.

Breytist staða ábyrgðarmanns þannig að hann telst ekki lengur uppfylla ofangreind skilyrði þá skal lántakandi útvega nýjan ábyrgðarmann fyrir námsláni sínu áður en hann fær frekari lán afgreidd hjá sjóðnum. Þá ábyrgist hinn nýi ábyrgðarmaður allt það lán sem lántakandi kann að fá til viðbótar. Eldri ábyrgð fellur ekki úr gildi nema að henni sé sagt upp og ný sett í staðinn með samþykki sjóðsins.

5.3.3 Réttarstaða ábyrgðarmanna og endurkröfur

Séu ábyrgðarmenn fleiri en einn bera þeir óskipta sameiginlega (solidariska) ábyrgð gagnvart sjóðnum.

Þegar ábyrgðarhluti ábyrgðarmanna er skiptur, t.d. í þeim tilvikum sem lán hafa verið sameinuð við endurgreiðslu, getur ábyrgðarmaður greitt upp sinn ábyrgðarhluta ásamt vöxtum og kostnaði verði vanskil á námslánaskuld.

Á meðan lán hefur ekki verið gjaldfellt getur ábyrgðarmaður haldið láninu í skilum. Í því sambandi getur hann óskað eftir því við sjóðinn að greiðslunni skuli ráðstafað til lækkunar á þeim hluta heildarskuldarinnar sem hann ábyrgðist.

Ákvæði skuldabréfs um undanþágur frá endurgreiðslu gilda ekki gagnvart ábyrgðarmanni sem ábyrgð hefur fallið á og tekið hefur að sér endurgreiðslu lánsins.

Látist ábyrgðarmaður getur lántakandi útvegað nýjan ábyrgðarmann sem uppfyllir ofangreind skilyrði en að öðrum kosti taka erfingjar hins látna við ábyrgðinni eftir almennum reglum ef erfingjar hafa á annað borð tekið á sig ábyrgð á skuldum dánarbúsins.

Ábyrgðarmaður getur sagt upp ábyrgðinni. Það skal gert skriflega til sjóðsins. Áhrif þess eru eingöngu þau að ekki aukast skyldur hans umfram það sem þá þegar er um samið. Ábyrgðarmaðurinn ber engu að síður áfram ábyrgð á þeim lánum sem þegar hafa verið veitt. Uppsögnin tekur gildi um leið og sjóðurinn hefur tilkynnt lántakanda um uppsögnina.

5.3.4 Veðtrygging

Óski námsmaður eftir að setja fasteign á Íslandi að veði til tryggingar námsláni þarf hann að leggja fram eftirfarandi gögn: Veðbókarvottorð, afrit síðustu greiðsluseðla vegna áhvílandi lána, fasteigna- og brunabótamat.

Við veðtryggingu námslána er miðað við að áhvílandi lán, að viðbættu láni frá sjóðnum, fari ekki yfir 85% af fasteignamati íbúðarhúsnæðis og sé innan við 85% af brunabótamati. Jafnframt er heimilt að fara fram á verðmat löggilts fasteignasala og skal þá miðað við að lán frá sjóðnum fari ekki yfir 80% af verðmati. Ekki er heimilt að setja erlenda fasteign að veði til tryggingar námsláni.

5.4 Greiðsla félagsgjalda

Óski námsmaður þess annast sjóðurinn innheimtu gjalds vegna félagsaðildar að Sambandi íslenskra námsmanna erlendis (SÍNE). Sjóðurinn dregur félagsgjaldið af námsláninu.

5.5 Breytingar á aðstoð
5.5.1 Tilkynningaskylda námsmanns

Umsækjanda ber að tilkynna allar breytingar á högum sínum er haft geta áhrif á veitingu námsaðstoðar, svo sem breyttar fjölskylduaðstæður, breytingar á fjárhag, heimilisfangi, netfangi, farsímanúmeri og námsáætlun, eða veikindi er valdið geta töfum í námi. Meðal annars ber að tilkynna sjóðnum þegar námsmaður stofnar til hjúskapar eða skráðrar sambúðar. Námsmanni ber auk þess að senda sjóðnum öll þau gögn sem hann kann að verða beðinn um vegna umsóknar hans um námslán eða frest á lokun skuldabréfs. Að námi loknu fara öll samskipti sjóðsins við lánþega í gegnum netfang hans nema annars sé óskað af hans hálfu. Lánþegi ber ábyrgð á því að sjóðurinn hafi réttar upplýsingar um netfang hans.

5.5.2 Leiðrétting á útreikningi

Ef í ljós kemur að sjóðurinn hefur veitt námsaðstoð eða reiknað út upphæð láns á röngum forsendum er það leiðrétt, samkvæmt nánari ákvæðum í þessum kafla. Er þá tekið tillit til þess hvort námsmaður hefur vísvitandi gefið villandi eða rangar upplýsingar, hvort um vanrækslu hefur verið að ræða af hans hálfu ellegar mistök frá hendi sjóðsins. Að jafnaði er mögulegt að semja um fyrirkomulag endurgreiðslna.

5.6 Vísvitandi villandi upplýsingar

Ef námsmaður hefur vísvitandi veitt sjóðnum rangar eða villandi upplýsingar fellur öll námsaðstoð við hann niður og aðstoð sem hann kann að hafa fengið vegna slíkra upplýsinga verður þegar í stað endurkræf með áfallinni verðtryggingu og kostnaði sem af hlýst. Þetta á m.a. við ef sannað þykir að námsmaður hafi gefið upp rangar tekjur samkvæmt skilgreiningu sjóðsins um tekjur, þegar viðkomandi skattári er lokið.

Háttsemi sem brýtur í bága við lög, s.s. skjalafals, getur haft refsiábyrgð í för með sér.

5.7 Ofgreidd lán
5.7.1 Ofgreidd lán

Ef námsmaður fær lán án þess að hafa uppfyllt skilyrði sjóðsins eða fær greitt hærra lán en hann á rétt á, t.d. vegna vanáætlaðra tekna, ófullnægjandi námsárangurs eða annarra ástæðna, ber honum að endurgreiða lánið sérstaklega með verðbótum frá útborgunardegi.
Hafi námsmaður sótt um námslán á næsta misseri á eftir því misseri sem ofgreiðslan tilheyrði, er sjóðnum heimilt að skuldajafna skuld vegna ofgreiðslu við óafgreitt námslán sem námsmaður á von á.
Sé ekki tækt að skuldajafna ofgreitt lán sbr. 2. mgr. þessarar greinar hefur námsmaður val um að staðgreiða ofgreiðsluna eða samþykkja sérstakt endurgreiðsluskuldabréf og skal lánstími að meginreglu til ekki vera lengri en 15 mánuðir. Endurgreiðsluskuldabréf skulu bera vexti sem eru í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands um almenna vexti af óverðtryggðum lánum og leggjast vextirnir á þá fjárhæð sem námsmanni ber að endurgreiða. Fyrsti vaxtadagur er tilgreindur í skuldabréfi og tekur mið af þeim degi er skuldabréfið er útbúið hjá sjóðnum.
Frekari námsaðstoð er stöðvuð þar til ofgreitt lán hefur verið gert upp. Ofgreidd lán námsmanna erlendis eru umreiknuð yfir í íslenskar krónur miðað við útborgunargengi lánsins.

5.7.2 Skuldabréf

Skuldabréf vegna ofgreiddra lána skulu að jafnaði bera vexti í samræmi við ákvörðun Seðlabanka Íslands um almenna vexti af óverðtryggðum lánum og leggjast vextirnir á þá fjárhæð sem námsmanni ber að endurgreiða frá útborgunardegi hins ofgreidda láns.

5.7.3 Vextir

Fyrsti vaxtadagur er skilgreindur í skuldabréfi.

5.7.4 Innheimta

Ofgreitt lán kemur til innheimtu eftir að námsárangur og önnur gögn eiga að hafa borist sjóðnum. Geri námsmaður ekki upp ofgreitt lán innan tilskilins frests er skuldabréfinu lokað, sbr. gr. 7.1, og innheimta skal hið ofgreidda lán sem aukaafborgun af námsláni hans.

5.8 Eftirlit með tekjum
5.8.1 Námsmenn á Íslandi

Sjóðurinn fær upplýsingar frá ríkisskattstjóra um tekjur samkvæmt skattframtali þess tekjuárs sem lagt var til grundvallar síðustu lánveitingu.

5.8.2 Námsmenn á Norðurlöndum

Námsmenn annars staðar á Norðurlöndum þurfa að skila staðfestum upplýsingum um tekjur s.l. árs. Í Danmörku „årsopgörelse“, í Noregi „skatteopgjør“ og í Svíþjóð „slutlig skatt“.

5.8.3 Námsmenn í öðrum löndum

Sjóðurinn hefur heimild til að krefjast staðfestra tekjuupplýsinga frá námsmönnum í öðrum löndum.

5.9 Mistök sjóðsins

Verði mistök við veitingu námsláns ber að leiðrétta þau strax og upp kemst. Námsmönnum er eindregið bent á að kynna sér vandlega þau ákvæði í þessum úthlutunarreglum sem eiga við hverju sinni og stuðla að því að slík mistök leiðréttist sem fyrst. Námsmanni skal tilkynnt um slík mistök og síðan ákveðið í hverju einstöku tilviki hvernig endurgreiðslu skuli hagað.
Yfirlit