Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

VII. Kafli – Lokun skuldabréfs

7.1 Gengið frá skuldabréfi

Skuldabréfi er lokað þegar námsmaður hættir að þiggja lán og er almennt miðað við lok síðasta aðstoðartímabils. Á það jafnt við um námsmenn sem ljúka námi og námsmenn sem hverfa frá námi án þess að ljúka því. Telst sá tímapunktur námslok í skilningi laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna og reglugerðar nr. 478/2011 um Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Þegar frágangur hefst á lokun skuldabréfs skulu lántakanda og ef við á ábyrgðarmanni sendar upplýsingar um upphæð skuldabréfsins sem til stendur að loka. Ábyrgðarmaður er jafnframt upplýstur um þá fjárhæð sem hann telst ábyrgur fyrir.

Þegar skuldabréfi hefur verið lokað skulu lántakanda sendar sundurliðaðar upplýsingar um veitt lán sem tilheyra skuldabréfinu, dagsetningu lokunar og hvenær vextir fara að reiknast af skuldabréfinu. Veittur er 14 daga frestur til að gera athugasemdir. Að þeim tíma liðnum er heimilt að fylla skuldabréfið út. Upplýsingar sendar í tölvupósti á netfang sem námsmaður hefur látið sjóðnum í té teljast sendar á fullnægjandi hátt.

Endurgreiðsla hefst tveimur árum eftir lokun skuldabréfs. Ljúki námsmaður námi á haust- eða vormisseri, miðast námslokin við 29. júní og fyrsti afborgunardagur er 30. júni tveimur árum síðar. Ef námslok eru á sumarönn sem nær fram yfir 1. júlí, miðast námslokin við 31. ágúst og fyrsti afborgunardagur er 1. mars tveimur og hálfu ári síðar. Ef námsmaður er byrjaður að greiða af eldri námslánum og hefur nám að nýju er ekki veitt aftur hlé frá endurgreiðslum fyrri lána.

7.2 Frestun á lokun skuldabréfs

Tilkynni námsmaður að hann hafi tekið sér námshlé sem er ekki lengra en eitt ár, er heimilt að fresta frágangi á skuldabréfi ljúki námsmaður lánshæfum námsárangri á fyrstu önn eftir námshlé. Síðasti dagur til þess að sækja um frestunina er til og með 15. nóvember 2019 ef námsmaður lauk lánshæfum námsárangri á námsárinu 2018-2019 eða er skráður í lánshæft nám á haustönn 2019. sbr. gr. 2.2 um lánshæfar einingar. Skilyrði þess að námsmaður geti frestað frágangi skuldabréfs er að hann ljúki lánshæfum námsárangri á því tímabili sem frestun tekur til. Heimilt er að fresta lokun skuldabréfs að hámarki í fjögur ár frá því að fyrsta aðstoð hjá sjóðnum var veitt, stundi námsmaður áfram lánshæft nám án þess að taka námslán. Umsókn um nýtt námslán á fyrstu önn eftir árshlé frá námi er ígildi umsóknar um frestun á lokun skuldabréfs.

Sæki námsmaður um frestun á lokun skuldabréfs vegna lánshæfs náms sem hann stundaði á námsárinu 2018-2019 er síðasti frestur til þess að skila umbeðnum gögnum til og með 15. janúar 2020. Sæki námsmaður aftur á móti um frestun á lokun skuldabréfs vegna lánshæfs náms á haustönn 2019, skulu umbeðin gögn vegna umsóknarinnar berast sjóðnum eigi síðar en 15. mars 2020.

Frestun á útborgun námsláns, t.d. vegna síðbúinna skila á upplýsingum hefur ekki í för með sér frestun á lokun skuldabréfs.

Ef námsmaður gerir hlé á námi sínu lengur en eitt námsár er ekki heimilt að fresta lokun skuldabréfs. Þegar námsmaður hefur aftur nám að loknu slíku námshléi skal líta á það sem nýtt nám (nýr námsferill) og verður námsmaður að gefa út nýtt skuldabréf í eigin nafni til tryggingar nýjum lánum, sbr. grein 5.2.4. Námsmaður greiðir jafnframt afborganir af eldra skuldabréfi, sjá þó grein 8.5 um undanþágur frá afborgun.

Stjórn sjóðsins ákveður lokun skuldabréfs í vafatilfellum.
Yfirlit