Close contact us

Hafa samband

Nafn
Kennitala
Netfang
Skilaboð

VIII. Kafli – Lánskjör

8.1 Endurgreiðslur námslána

Endurgreiðslur námslána taka mið af ákvæðum hvers skuldabréfs og þeim lögum sem í gildi voru þegar lánin voru tekin. Að öðru leyti gilda samþykktar úthlutunarreglur hverju sinni.

Fylgiskjöl vegna umsókna tengd endurgreiðslum skulu berast sjóðnum eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að umsóknarfrestur rennur út. Að öðrum kosti er heimilt að líta svo á að greiðandi sé fallinn frá umsókn. Í þeim tilvikum sem greiðandi hefur fengið endurútreikning frá skattayfirvöldum er heimilt að taka tillit til þess endurútreiknings þótt gögn berist eftir framangreindan frest, að því gefnu að umsókn um endurútreikning berist fyrir umsóknarfrest hvers umsóknarárs, sbr. gr. 8.4.

Þeim lánþegum sem búa erlendis ber að senda sjóðnum upplýsingar um heimilisfang sitt, netfang og farsímanúmer og/eða hafa umboðsmann hér á landi sem sér um hans mál. Samskipti við umboðsmann jafngilda samskiptum við lánþega hvort sem það er í formi tölvupósts, samtala eða bréfasendinga. Umboðsmaður ber því ábyrgð á að upplýsa þann lánþega sem hann hefur umboð fyrir um allar beiðnir um skil á gögnum til sjóðsins og um tilkynningar sem berast frá sjóðnum. Einnig skal hann upplýsa lánþega um önnur samskipti við sjóðinn sem skipt geta máli.

8.2 Vextir G–lána og verðtrygging
8.2.1 Lánskjör og vextir

Lán samkvæmt lögum nr. 21/1992 eru verðtryggð og bera allt að 3% vexti frá lokun skuldabréfs. Fái námsmaður greitt út lán eftir lokunardag skuldabréfs, reiknast vextir á þá greiðslu frá deginum eftir útborgun. Verðtryggingin miðast við breytingar á vísitölu neysluverðs. Lánþega ber að greiða 1,2% lántökugjald í hvert sinn sem lán er tekið og bera kostnað af innheimtu á hverjum gjalddaga.

8.2.2 Verðtrygging

Lán úr sjóðnum eru verðtryggð með vísitölu neysluverðs og reiknast verðtryggingin frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir útborgun. Eftir ákvörðun um lokun skuldabréfs er skuld uppreiknuð og grunnvísitala skuldabréfs miðuð við vísitölu neysluverðs á lokunardegi.

8.3 Endurgreiðslutími
8.3.1 Lán er afborgunarlaust í tvö ár

Endurgreiðsla hefst tveimur árum eftir lokun skuldabréfs, sbr. gr. 7.1. Það á þó ekki við í þeim tilfellum þegar lánþegi hefur þegar hafið endurgreiðslur námsláns en fengið endurgreiðslum frestað tímabundið vegna þess að hann hefur hafið nám að nýju. Í þeim tilfellum halda afborganir eldri lána strax áfram á næsta almanaksári eftir að nýja náminu lýkur.

8.3.2 Uppgreiðsla og innborganir námslána

Lánþega er heimilt að greiða inn á eða greiða upp námslán fyrr en ákvæði skuldabréfs kveða á um án viðbótarkostnaðar.
Einstaklingur sem greiðir upp ógjaldfallið námslánaskuldabréf á rétt á uppgreiðsluafslætti sem nemur 7% af ógjaldföllnum eftirstöðvum hins uppgreidda skuldabréfs fyrir uppgreiðslu. Framangreind heimild miðast við að eftirstöðvar lánsins séu greiddar í einni greiðslu. Einstaklingar eiga ekki rétt á uppgreiðsluafslætti vegna uppgreiðslu námsláns nema endurgreiðsla á einu eða fleiri námslána hans sé hafin, sbr. 7. kafla, Til þess að eiga rétt á uppgreiðsluafslætti vegna uppgjörs á láni mega ekki vera minna en 30 dagar í næsta reglulega gjalddaga lánsins.
Uppgreiðsluafsláttur skal endurgreiddur til þess aðila sem greiddi upp námslánið (getur verið annar en skuldari).

Sækja þarf um uppgreiðsluafslátt innan þriggja mánaða frá því að uppgreiðsla fór fram. Að þeim tíma liðnum verður ekki veittur uppgreiðsluafsláttur.

Þrátt fyrir ákvæði í kafla X, gildistaka, um að reglur þessar gildi fyrir námsárið 2019-2020 þá tekur þetta ákvæði strax gildi við birtingu þessara úthlutunarreglna í Stjórnartíðindum.

8.4 Árleg endurgreiðsla

Árleg endurgreiðsla er í tvennu lagi. Annars vegar er föst greiðsla sem innheimtist 1. mars, en þó getur fyrsti gjalddagi verið annar. Hins vegar viðbótargreiðsla sem innheimtist 1. september og er háð tekjum fyrra árs.

Föst ársgreiðsla reiknast eins og segir í 8. gr. laga nr. 21/1992 um Lánasjóð íslenskra námsmanna og uppreiknast miðað við vísitölu neysluverðs 1. janúar ár hvert. Viðbótargreiðslan miðast við 3,75% af tekjustofni ársins á undan endurgreiðsluári, en með tekjustofni er átt við útsvarsstofn lánþega að viðbættum fjármagnstekjum, sbr. c–lið 7. gr. laga nr. 90/2003. Ef lánþegi er í skráðri sambúð er miðað við 50% fjármagnstekna hans og sambúðaraðilans og skiptir ekki máli hvort tekjurnar eru af séreign samkvæmt kaupmála eða hjúskapareign. Sú fjárhæð sem þannig fæst skal margfölduð samkvæmt hlutfallslegri breytingu á vísitölu neysluverðs frá 1. júlí á tekjuöflunarári til 1. júlí á endurgreiðsluári. Samkvæmt framansögðu dregst áðurnefnd föst ársgreiðsla frá viðbótargreiðslunni.

Sé lánþega áætlaður skattstofn skal miða við hann. Sé lánþegi á endurgreiðslutíma ekki skattskyldur á Íslandi af öllum tekjum sínum og eignum skal honum gefinn kostur á að senda sjóðnum staðfestar upplýsingar um tekjur sínar og skal árleg viðbótargreiðsla ákveðin í samræmi við það. Við myndun gjalddaga eru erlendar tekjur umreiknaðar í íslenskar krónur fyrir viðkomandi mynt og er miðað við meðalgengi Seðlabanka Íslands þess tekjuárs sem afborgun er reiknuð út frá. Geri hann það ekki eða telja verður upplýsingar hans ósennilegar og ekki unnt að sannreyna tekjustofn samkvæmt því skal stjórn sjóðsins áætla honum tekjustofn til útreiknings árlegrar viðbótargreiðslu.

Lánþegi á rétt á endurútreikningi árlegrar viðbótargreiðslu sé hún byggð á áætluðum tekjum. Hann skal þá sækja um endurútreikninginn eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar en umsókn frestar ekki innheimtu á gjalddaga. Greiðsludreifing á gjalddaga lengir ekki framangreindan umsóknarfrest. Endurútreikningur fer síðan fram þegar sjóðnum hafa borist bestu fáanlegar upplýsingar um tekjur greiðanda. Þegar staðfestar upplýsingar um tekjurnar liggja fyrir skulu þær sendar sjóðnum og endurútreikningurinn endurskoðaður til samræmis. Hafi tekjustofn verið of hátt áætlaður skal lánþega endurgreidd ofgreidd fjárhæð.

Verði veruleg vanskil á endurgreiðslu námsláns eða hafi lánþegi vantalið tekjur sínar á framtali er heimilt að fella allt lánið í gjalddaga. Hækkun á viðbótargreiðslu vegna endurskattlagningar er gjaldkræf þegar í stað ásamt dráttarvöxtum samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma frá gjalddaga greiðslunnar.

Ef lánþegi er úrskurðaður gjaldþrota falla allar kröfur á hendur honum í gjalddaga, sbr. lög um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.

8.5 Undanþágur
8.5.1 Undanþága vegna verulegra fjárhagsörðugleika

Stjórn sjóðsins er heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu að hluta eða öllu leyti ef lánshæft nám, atvinnuleysi, óvinnufærni vegna veikinda og/eða örorku, þungunar eða umönnunar barna, umönnunar maka eða aðrar sambærilegar ástæður valda verulegum fjárhagsörðugleikum hjá lánþega. Almennt er miðað við að ekki séu veittar undanþágur ef árstekjur lánþega eru yfir kr. 4.236.000 og árstekjur hjóna/sambúðarfólks eru yfir kr. 8.472.000 vegna tekna ársins á undan. Ef umsækjandi er ekki með skattalega heimilisfesti á Íslandi og tekjur hans eru í erlendum gjaldmiðli, skal miða við kaupgengi á gjalddaga afborgunar.

Með lánshæfu námi er átt við að nám umsækjanda uppfylli skilyrði 1. kafla úthlutunarreglna um lánshæfi náms og að námsmaður uppfylli skilyrði 2. kafla um námsframvindu.

Óvinnufær vegna örorku telst sá sem hefur rétt til örorkulífeyris samkvæmt skilgreiningu Tryggingastofnunar. Með umönnun barna og/eða maka er átt við að umönnunin hafi áhrif á möguleika umsækjanda til atvinnu.

Að jafnaði er miðað við að ástæður þær sem valda örðugleikunum hafi varað í a.m.k. fjóra mánuði fyrir gjalddaga afborgunar.

8.5.2 Undanþága vegna skyndilegra og verulegra breytinga

Einnig er stjórn sjóðsins heimilt að veita undanþágu frá árlegri endurgreiðslu að hluta eða öllu leyti, ef skyndileg og veruleg breyting hefur orðið á högum lánþega þannig að útsvarsstofn vegna tekna á fyrra ári gefur ekki rétta mynd af fjárhag lánþega á endurgreiðsluárinu. Heimildin miðast við að skyndileg og alvarleg veikindi, slys eða aðrar sambærilegar ástæður valdi verulegri skerðingu á ráðstöfunarfé og á möguleika til að afla tekna.

8.5.3 Sótt um undanþágu

Lánþegi sem óskar eftir undanþágu frá endurgreiðslu námsláns skal sækja um það í gegnum „Mitt LÍN“ og senda með upplýsingar sem óskað er eftir. Sækja þarf um undanþágu fyrir hvern gjalddaga fyrir sig.

Umsókn um undanþágu frá endurgreiðslu námsláns skal berast sjóðnum eigi síðar en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar. Hafi ósk um undanþágu ekki borist sjóðnum fyrir þessi tímamörk er óheimilt að veita undanþágu, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um sjóðinn. Greiðsludreifing á gjalddaga lengir ekki framangreindan umsóknarfrest. Umsókn um undanþágu frestar ekki innheimtu málsins.

Ef veitt er undanþága, þá á hún einungis við þann gjalddaga sem umsóknin miðaðist við. Veitt undanþága frá endurgreiðslu S- og/eða V-láns hefur ekki áhrif á fjölda endurgreiðsluára, þ.e. endurgreiðslutíminn lengist sem nemur undanþágutímanum.

Sjóðurinn áskilur sér heimild til þess að óska eftir því að trúnaðarlæknir sjóðsins á hverjum tíma afli upplýsinga hjá viðkomandi lækni um innsent læknisvottorð og gefi umsögn um efni þess. Verði slíkar upplýsingar ekki veittar getur sjóðurinn litið svo á að fullnægjandi umsókn hafi ekki verið skilað.

8.6 Greitt af fleirum en einu láni

Lánþegi sem skuldar eldri námslán en G-lán skal fyrst endurgreiða eldri lánin. Á næsta almanaksári eftir að endurgreiðslu þeirra lýkur eða á að vera lokið skal hann hefja endurgreiðslu G-lánsins.

Ef lánþegi skuldar R-lán og jafnframt V- eða S-lán skal hann fyrst greiða R-lánið. Ef lánþegi greiðir bæði af V- og S-láni dragast afborganir V-láns frá afborgunum S-lánsins.

Lánþegi sem tekið hefur tvö eða fleiri R-lán skal greiða af elsta láni sínu fyrst. Það sama gildir um lánþega sem tekið hefur tvö eða fleiri G-lán. Innheimta telst hafin á öllum lánum innan lánaflokksins þegar greiðslur hefjast á elsta láninu, en greiðslur af nýrri lánum frestast þar til eldri lán eru að fullu greidd.

8.7 Innheimta lána og vanskil

Ef lánþegi greiðir ekki afborgun á réttum tíma og hefur ekki samið við sjóðinn um greiðslu, er krafan send til lögmanna í innheimtu. Ef krafa á hendur lánþega er þegar í innheimtu hjá lögmönnum fara nýjar kröfur beint í innheimtu hjá lögmönnum. Þegar afborgun er í löginnheimtu ber lánþega að semja um skuld sína beint við lögmenn án milligöngu sjóðsins. Standi lánþegi ekki í skilum, er sjóðnum heimilt að gjaldfella höfuðstól lánsins og innheimta með hæstu leyfilegu dráttarvöxtum.

Þegar höfuðstóll láns sem veitt er samkvæmt lögum nr. 21/1992, er gjaldfelldur hefur sjóðurinn jafnframt heimild til að gjaldfella önnur lán í sama lánaflokki.
Yfirlit