Úrskurður
Ár 2009, fimmtudaginn 22. janúar, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-20/2008.
Kæruefni
Með kæru dags. 28. nóvember 2008 kærði kærandi úrskurð stjórnar
LÍN frá 10. nóvember sl. þar sem hafnað var beiðni kæranda um námslán þar sem
nám kæranda taldist ekki lánshæft.
Stjórn LÍN var með bréfi dags. 2.
desember sl. tilkynnt um kæruna og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana.
Svarbréf stjórnar LÍN er dags. 12. desember sl. Með bréfi dags. 18. desember sl.
var kæranda kynnt efni svars stjórnar LÍN og jafnframt gefinn kostur á að tjá
sig um það. Engar frekari athugasemdir hafa borist frá kæranda.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi stundar nám við PDU, Danmarks Pædagogiske
Universitetsskole. Námið heitir Professionudvikling og er skipulagt sem 60
ECTS-eininga hlutanám og spannar tvö skólaár. Kærandi lauk 15 ECTS-einingum á
vormisseri 2008 og er skráður í 45 ECTS-eininga nám á skólaárinu 2008-2009.
Stjórn LÍN bendir á að skilyrði til að nám teljist lánshæft eru þau að
nám sé skipulagt þannig að námsmaður ljúki a.m.k. 45 ECTS-einingum á ári þau ár
sem hann stundar námið. Í tilviki kæranda er námið skipulagt sem tveggja ára nám
þar sem námsmaður lýkur 60 ECTS-einingum og nær hann því ekki að uppfylla
lágmarks árangur samkv. gr. 1.1 í úthlutunarreglum LÍN.
Niðurstaða
Í 1. mgr. gr. 1.1. í úthlutunaarreglum LÍN segir: "Nám telst
lánshæft ef það er skipulagt af skóla sem a.m.k. 45 ECTS-eininga nám á hverju
námsári. þ.e. 75% af fullu námi, sbr. gr. 2.1., þó aldrei á lengri tíma en 12
mánuðum." Nám kæranda er við DPU háskólann er skipulagt sem 60 ECTS-eininga
nám og spannar tvö skólaár.
Með vísan til þess er ljóst að skipulag á
námi kæranda uppfyllir ekki ofangreind skilyrði úthlutunarreglna LÍN um a.m.k.
45 ECTS-eininga nám á hvoru skólaári er úrskurður stjórnar LÍN frá 10. nóvember
2008 í máli kæranda staðfestur.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda er staðfestur.