Úrskurður
Ár 2012, miðvikudaginn 13. júní, kvað málskotsnefnd Lánasjóðs íslenskra námsmanna upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. L-26/2011:
Kæruefni
Með kæru dagsettri 26. júlí 2011 kærði kærandi úrskurð stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) frá 23. júní 2011, þar sem kæranda var synjað endurupptöku máls vegna útreiknings tekjutengdrar afborgunar 2010. Stjórn LÍN var tilkynnt um kæruna með bréfi dagsettu 2. ágúst 2011 og jafnframt gefinn kostur á að tjá sig um hana. Kæranda var sent afrit bréfsins sama dag. Athugasemdir stjórnar LÍN voru settar fram í bréfi dagsettu 30. ágúst 2011. Með bréfi málskotsnefndar dagsettu 6. september 2011 var kæranda gefinn kostur á að koma frekari sjónarmiðum á framfæri. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi dagsettu 31. september 2011. Með bréfi dagsettu 9. janúar 2012 óskaði málskotsnefnd eftir upplýsingum frá stjórn LÍN um könnun á skattalegri stöðu kæranda hér á landi og hvort kæranda hafi verið gefinn kostur á að gera grein fyrir tekjum sínum vegna ársins 2009. Svar LÍN barst með bréfi dagsettu 24. janúar 2012. Með bréfi dagsettu 30. janúar 2012 var kæranda gefinn kostur á að tjá sig um svör LÍN. Þann 20. apríl óskað málskotsnefnd enn eftir frekari gögnum frá LÍN varðandi áætlun tekna hjá kæranda. Svör LÍN bárust með bréfi dagsettu 30. apríl 2012. Með bréfi dagsettu 3. maí 2012 var kæranda gefinn kostur á að tjá sig um svör LÍN. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi dagsettu 3. maí 2012 fór málskotsnefnd þess á leit við embætti ríkisskattstjóra að veittar yrðu upplýsingar um skattalega stöðu kæranda á árinu 2009. Svar embættisins barst með bréfi 6. júní 2012. Þar kemur fram það álit embættisins að skv. 1. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, hafi kærandi borið takmarkaða skattskyldu á Íslandi frá og með búferlaflutningi sem var þann 29. ágúst 2009. Var svar ríkisskattstjóra sent stjórn LÍN til upplýsinga þann 12. júní 2012.
Málsatvik og ágreiningsefni
Kærandi er búsett erlendis. Fram kemur í kærunni að hún hafi
flust búferlum til Danmerkur í lok ágúst 2009. Síðan hafi hún flutt frá Danmörku
til Noregs nokkrum mánuðum síðar. Þegar til þess kom hjá LÍN að senda kæranda
bréf vegna tekjutengdrar afborgunar haustið 2010 tókst LÍN ekki að afla
upplýsinga um heimilisfang kæranda. Kærandi hafði samband við LÍN vegna
tekjutengdrar afborgunar þann 13. september 2010 og var henni bent á að senda
upplýsingar um tekjur sínar til LÍN. Umrædd gögn frá kæranda bárust þó ekki fyrr
en 12. mars 2011. Synjaði LÍN beiðni kæranda um að umrædd gögn yrðu lögð til
grundvallar við útreikning tekjutengdrar afborgunar þar sem þau hafi borist
eftir að 60 daga frestur til að óska eftir endurútreikningi var liðinn. Miðaðist
fresturinn við gjalddaga afborgunarinnar sem var 1. september 2010. Kærandi fór
þess á leit við LÍN 12. mars 2011 að tekjutengd afborgun hennar yrði
endurútreiknuð þar sem hún hafi sent inn skattframtal er sýndi raunverulegar
tekjur. Stjórn LÍN synjaði erindi kæranda með úrskurði dagsettum 29. mars 2011.
Með bréfi dagsettu 10. maí 2011 fór kærandi þess á leit við stjórn LÍN að mál
hennar yrði endurupptekið á grundvelli þess að henni bæri ekki að greiða þessa
greiðslu sökum þess hve tekjulág hún hafi verið á árinu 2009. Hafi LÍN byggt
ákvörðun um greiðslugetu kæranda á ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik, auk
þess sem ekki hafi verið gætt að leiðbeiningarskyldu varðandi frest til að skila
inn gögnum um tekjur. Að auki hafi LÍN ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni í
málinu þar sem ekki hafi legið fyrir nauðsynleg gögn og upplýsingar um tekjur
kæranda en að kærandi hafi verið að afla þeirra gagna. Stjórn LÍN synjaði beiðni
kæranda um endurupptöku með úrskurði þann 23. júní 2011. Vísaði LÍN í úrskurði
sínum einkum til þess að skv. 3. mgr. 10. gr. laga nr. 21/1992 um lánasjóð
íslenskra námsmanna skuli áætla greiðanda tekjustofn þegar hann skili ekki inn
gögnum um raunverulegar tekjur.
Sjónarmið kæranda
Fram
kemur í kærunni að kærandi hafi flutt til Danmerkur í ágúst 2009 þar sem
eiginmaður hennar hugðist stunda nám. Fljótlega hafi þó forsendur breyst og hafi
fjölskyldan flutt til Noregs nokkrum mánuðum síðar þar sem þau búi enn. Kærandi
kveðst hafa lent í erfiðleikum með að fá send gögn frá skattyfirvöldum í
Danmörku um tekjuleysi sitt þar sem heimilisfang hennar hafi ekki verið rétt
skráð í kerfinu hjá þeim. Hafi henni ekki tekist að greiða úr málinu fyrr en hún
hafi farið sjálf til Danmerkur þann 9. mars 2011 og fengið yfirlitið sem
vantaði. Kærandi byggir á því að er hún leitaði til sjóðsins í september 2010
hafi henni ekki verið veittar fullnægjandi leiðbeiningar um að henni bæri að
skila tekjuupplýsingum innan tilkilins frests. Hafi LÍN með því ekki sinnt
nægjanlega vel leiðbeiningarskyldu 7. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi kveðst einnig
hafa sent gögn til LÍN er staðfesti hversu tekjulág hún hafi verið árið 2009.
Hafi ákvörðun LÍN því byggst á ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik. Hafi LÍN
einnig brugðist rannsóknarskyldu sinni í málinu með því að taka ekki tillit til
þess að kærandi væri að afla gagna um tekjur sínar. Fer kærandi þess á leit að
málið verði endurskoðað sökum þess hve tekjulág hún hafi verið á árinu 2009. Þá
vísar kærandi einnig til þess að hún hafi í fyrsta sinn verið að greiða
tekjutengda afborgun þar sem hún hafi nýverið útskrifast og hafi haft lágar
tekjur sökum barneigna. Einnig fer kærandi þess á leit að tekið verði tillit til
erfiðra persónulegra aðstæðna sökum fjárskorts sem fjölskyldan hafi liðið þegar
forsendur brugðust fyrir dvöl þeirra í Danmörku og þau hafi af þeim sökum flutt
til Noregs.
Sjónarmið LÍN
Stjórn LÍN vísar til þess að
kæranda hafi verið bent á að hún þyrfti að skila inn framtali til sjóðsins þar
sem henni höfðu verið áætlaðar tekjur vegna ársins 2009. Þrátt fyrir þetta hafi
kærandi ekki skilað tilskyldum gögnum um tekjur sínar fyrr en 12. mars 2011.
Telur stjórnin það ekki hafa verið skyldu starfsfólks sjóðsins að benda kæranda
á umsóknarfrestinn þegar kærandi hafði sambandi við sjóðinn 13. september 2010.
Stjórn LÍN upplýsir einnig að kærandi hafi flutt úr landi 29. ágúst 2010
samkvæmt Þjóðskrá. Þar sem kærandi hafi verið með skráð lögheimili erlendis hafi
það verið mat stjórnar sjóðsins að kærandi bæri takmarkaða skattskyldu hérlendis
árið 2009. Bendir stjórn LÍN á að samkvæmt 10. gr. laga nr. 21/1992 hvíldi sú
skylda á greiðendum búsettum erlendis að skila inn skattframtali til sjóðsins
annars væri sjóðnum heimilt að áætla tekjur hans. Hafi kærandi átt möguleika á
því að koma réttum upplýsingum um tekjur sínar í Danmörku árið 2009 til sjóðsins
skv. því sem áskilið væri í úthlutunareglunum. Ennfremur hafi kærandi átt
möguleika á að fá endurútreikning á 1. september gjalddaganum allt að 60 dögum
eftir gjalddaga í kjölfar þess að tekjur hennar voru áætlaðar. Þrátt fyrir að
ekki hafi verið hægt að senda bréf til kæranda hafi allar upplýsingar verið
aðgengilegar í úthlutunarreglunum og á heimasíðu sjóðsins. Hafi kæranda mátt
vera ljóst hvaða möguleika hún hafi átt til að koma upplýsingum til sjóðsins. Um
aðferð við áætlun tekna kæranda vísar stjórn LÍN til umfjöllunar sinnar í
tengslum við mál L-31/2010. Sú aðferð sé enn í gildi og hafi málskotsnefnd
staðfest hana með úrskurði sínum í málinu. Ennfremur bendir stjórn LÍN á að ef
kærandi hefði skilað inn skattframtali frá Noregi (sic) vegna 2009 hefði sú tala
sem þar kæmi fram lagst við álagninguna á Íslandi, en þar sem slíkar upplýsingar
lágu ekki fyrir hafi verið miðað við áætlun erlendis enda sú áætlun byggð á
árslaunum. Samkvæmt álagningarskrá frá RSK hafi útsvarstekjur kæranda verið kr.
2.281.900 og fjármagnstekjur kr. 44.890. Þar sem kærandi hafi haft lögheimili
erlendis 31. desember 2009 hafi áætlaðar tekjur erlendis vegna 2009 verið kr.
9.000.000 sem byggðist á því að síðasta námsgráða kæranda væri grunnháskólanám í
kennslufræðum, nánar tiltekið vegna leikskólakennslu.
Niðurstaða
Í 8. gr. laga nr. 21/1992 um LÍN er mælt fyrir um endurgreiðslu
námslána. Samkvæmt 1. mgr. ákvarðast árleg endurgreiðsla lánþega í tvennu lagi.
Skýrlega er mælt fyrir um það að önnur greiðslan skuli vera föst greiðsla, sem
innheimt er á fyrri hluta ársins og sé hún óháð tekjum en hins vegar sé
tekjutengd greiðsla innheimt á seinni hluta ársins og sé hún háð tekjum fyrra
árs. Í 3. mgr. 8. gr. kemur fram að viðbótargreiðslan miðast við ákveðinn
hundraðshluta af útsvarsstofni ársins á undan endurgreiðsluári og er
útreikningum greiðslunnar nánar lýst í næstu málsgreinum. Um tekjuviðmið
endurgreiðslu er nánar kveðið á um í 10. gr. laganna en þar segir í 1. mgr. :
Þegar tekjur eru skattskyldar á Íslandi er með tekjustofni í lögum þessum átt
við útsvarsstofn lánþega að viðbættum tekjum skv. C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003,
um tekjuskatt og eignarskatt.
Í 4. mgr. 10. gr. laganna segir síðan:
Sé lánþega áætlaður skattstofn skal miða við hann. Sé lánþegi á
endurgreiðslutímanum ekki skattskyldur á Íslandi af öllum tekjum sínum og eignum
skal honum gefinn kostur á að senda sjóðnum staðfestar upplýsingar um tekjur
sínar og skal árleg viðbótargreiðsla ákveðin í samræmi við það. Geri hann það
ekki eða telja verður upplýsingar hans ósennilegar og ekki unnt að sannreyna
tekjustofn samkvæmt því skal stjórn sjóðsins áætla honum tekjustofn til
útreiknings árlegrar viðbótargreiðslu.
Í 11. gr. laganna segir
síðan:
Lánþegi á rétt á endurútreikningi árlegrar viðbótargreiðslu sé
hún byggð á áætluðum tekjum. Hann skal þá sækja um endurútreikninginn eigi síðar
en 60 dögum eftir gjalddaga afborgunar og leggja fyrir stjórn sjóðsins bestu
fáanlegar upplýsingar um tekjurnar.
Eins og áður greinir hefur LÍN
byggt á því í máli þessu að kærandi hafi verið með lögheimili erlendis þann 31.
desember 2009. Með vísan til þess komst LÍN að þeirri niðurstöðu að kærandi bæri
takmarkaða skattskyldu á Íslandi á árinu 2009 og áætlaði LÍN tekjur kæranda
vegna þess árs með vísan til að hún bæri takmarkaða skattskyldu hérlendis á því
ári. Framkvæmd LÍN ber ekki saman við þær upplýsingar sem málskotsnefnd aflaði
frá RSK um skattalega stöðu kæranda á árinu 2009. Í bréfi RSK kemur fram að
kærandi hafi einungis haft takmarkaða skattskyldu hér á landi frá því að hún
flutti af landi brott þann 29. ágúst 2009. Einnig kemur fram af hálfu LÍN að
upplýsingar álagningaskrár RSK um hverjar tekjur kæranda voru fram til þess tíma
er hún flutti af landi brott lágu fyrir hjá sjóðnum, þ.e. útsvarstekjur kæranda
á þessu tímabili voru kr. 2.281.900 og fjármagnstekjur kr. 44.890. Þegar svo er
háttað er LÍN óheimilt að beita ákvæðum 4. mgr. 10. gr. laga nr. 21/1993 og
krefja kæranda um gögn vegna tekna erlendis vegna tímabilsins 1. janúar til 29.
ágúst 2009, enda ljóst að kærandi bar á þessum tíma ótakmarkaða skattskyldu
hérlendis skv. ákvæðum laga nr. 90/2003 um tekjurskatt. Bar því LÍN að leggja
til grundvallar tekjur kæranda samkvæmt álagningaskrá RSK við útreikning á
tekjutengdri endurgreiðslu. Af þessu ástæðum gilti heldur ekki fyrrgreind 60
daga regla 11. gr. laga nr. 21/1993 um þennan hluta tekna kæranda þar sem sú
reglna á einungis við um endurútreikning árlegrar viðbótargreiðslu sé hún byggð
á áætluðum tekjum. Þegar kærandi óskaði eftir endurútreikningi var LÍN því
heimilt að beita heimild 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um endurupptöku þar
sem við ákvörðun LÍN um útreikning tekjutengdrar afborgunar kæranda var að hluta
til byggt á röngum upplýsingum um málsatvik. Samkvæmt framansögðu er ljóst að
við ákvörðun á gjaldstofni vegna tekjutengdrar afborgunar byggði LÍN á röngu
ákvæði laga nr. 21/1992 varðandi þann hluta tekna kæranda er hún aflaði sér allt
til þess að hún fluttist brott af landinu þann 29. ágúst 2009. Var stjórn LÍN
því ekki heimilt að synja beiðni hennar um endurútreikning með vísan til þess að
60 daga frestur 11. gr. laganna væri útrunninn. Sá frestur átti ekki við um
þennan hluta tekna kæranda. Er það niðurstaða málskotsnefndar að LÍN hafi ekki
lagt réttan lagagrundvöll að ákvörðun um tekjur kæranda á umræddu tímabili skv.
10. gr. laga nr. 21/1992 auk þess sem framkvæmdin hafi ekki verið í samræmi við
rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Málskotsnefnd bendir í þessu sambandi á
að í máli L-18/2011 staðfesti málskotsnefnd sambærilega framkvæmd LÍN varðandi
ákvörðun tekjutengdrar afborgunar en LÍN hafði lagt til grundvallar
"álagningarskrá RSK í upphafi ágústmánaðar 2010" varðandi hérlendar
tekjur kæranda en að hluta til lagt til grundvallar gögn frá erlendum
skattyfirvöldum. Sökum þeirra annmarka er voru á ákvörðun um tekjutengda
afborgun kæranda sem lýst er hér að ofan er það niðurstaða málskotsnefndar að
ekki verði hjá því komist að fella ákvörðun stjórnar LÍN úr gildi í heild sinni.
Með vísan til framangreindra sjónarmiða er úrskurður stjórnar LÍN í máli kæranda
felldur úr gildi.
Úrskurðarorð
Úrskurður stjórnar LÍN frá 23. júní 2011 í máli kæranda er felldur úr gildi.